Ljósmæður skapa örugg rými | Opið samtal

Hvar upplifa sig verðandi mæður öruggar? Hafa þær staði til að sækja sér upplýsinga og ræða um eigin líðan? Hversu oft þarftu að hafa komið á stað til að finnast þú geta verið þú sjálf?

Teymi Fæðingarheimilis Reykjavíkur tók þátt í opnu samtali um örugg rými kvenna á alþjóðlegum baráttudegi kvenna á bókasafninu. Embla Ýr Guðmundsdóttir og Emma Marie Swift stofnuðu Fæðingarheimilið í kringum sameiginlega sýn um persónulega og samfellda ljósmæðraþjónustu. Nú þróa þær þjónustuna með Edythe L. Mangindin og Stefaníu Ósk Margeirsdóttur. Í öllum sínum störfum taka þær mið af stöðu kvenna og hvenær þörf er á að útfæra þjónustu og fræðslu yfir á önnur tungumál en íslensku og laga að tilteknum menningarsamhengjum. Bæði Fæðingarheimilið og bókasafnið hafa að markmiðið vinna gegn félagslegri einangrun og skapa stað sem fólk treystir. Í samtalinu var meðal annars rætt hvað hafi áhrif á það hvort konur vilja mæta á ákveðna staði og hvað ráði því hvort konur treysti fagfólki fyrir eigin reynslu og upplifun? 

Fæðingarheimilið er í stöðugri þróun og dreyma frumkvöðlarnir um að skapa vettvang sem tengir bæði fagfólk og notendur og nær utan um heildarferlið frá kynþroska til breytingaskeiðs. Á bókasafninu fer fram tilraunastarfsemi og fannst okkur tilvalið að næsta skref væri að prófa sig áfram með samverustundir verðandi og ungra foreldra og tengja það fagþekkingu ljósmæðra og annarra fagaðila með nýjum hætti. 

Í tilefni samtalsins stilltum við út sérvöldum bókum ljósmæðra Fæðingarheimilisins í Grófinni og bættum í safnkostinn bókum á pólsku um meðgöngu og fæðingu, sem þær mæla sérstaklega með:

Poród naturalny - K. Oleś
Cesarskie cięcie i poród po cięciu cesarskim -  M. Hull, K. Osadnik
Poród naturalny - Ina May Gaskin
Karmienie Piersią - M. Karpienia
Karmienie piersią. Siedem naturalnych praw - N.Mohrbacher, K. Kendall-Tackett
Jak zrozumieć małe dziecko - Nutuli
Czwarty trymestr - M.Komsta
Księga rodzicielstwa bliskości - W. Sears, M.Sears

Bækurnar sem pantaðar voru ættu að vera komnar á bókasafnið á næstu vikum. Hér er PDF iconheildarlisti lesefnis sem ljósmæður Fæðingarheimilis Reykjavíkur mæla með.
Ert þú með bók sem þig langar að sjá á safninu eða verkefni sem þig langar að þróa? Hafðu samband, við erum með opin fyrir nýjum hugmyndum. 

Frekari upplýsingar
Dögg Sigmarsdóttir
Verkefnastjóri | Borgarleg þátttaka
dogg.sigmarsdottir@reykjavik.is