Keli heldur á Gubbað með gleði eftir Tvíhöfða

Lesandinn | Hrafnkell Örn Guðjónsson

Hann Hrafnkell Örn Guðjónsson er lesandi vikunnar á Borgarbókasafninu. Flestir þekkja hann eflaust frekar sem Kela trommara en það sem ekki allir vita er að hann er mikill húmoristi, vinum og vandamönnum til mikillar gleði (en stundum ama). Við nöppuðum honum þegar við kíktum í heimsókn á Bókasafn Akraness og báðum hann um að velja sér einn grip á safninu til að mæla með fyrir lesendur okkar og hann var ekki lengi að leita uppi Tvíhöfða. 

„Jón Gnarr og Sigurjón Kjartansson lögðu grundvöllinn að húmor minnar kynslóðar. Bróðurparturinn af því glensi sem ég hef tileinkað mér í daglegu lífi hefur verið byggður ofan á þann grunn sem þeir félagar lögðu á sínum tíma. Safndiskurinn Gubbað af gleði inniheldur 62 innslög og mörg þeirra eru hornsteinar íslenska grínsins eins og við þekkjum það í dag. „Kindin Einar“ er þarna á listanum og sömuleiðis „Táningafræðarinn“, sem og „Björk í skóginum“. Flest allt á plötunni er bara létt og laggott en annað gæti farið fyrir brjóstið á mörgum, enda er tekist á við viðkvæm samfélagsleg vandamál þarna inn á milli handahófskennda bullsins. Núna þegar ég pæli í því hafa þessir brandarar að geyma nokkuð grófar ádeilur sem eiga enn mjög vel við í dag. „Þjóðhátíðarlag“ er til dæmis hárbeitt ádeila á nauðgunarmenningu á Íslandi. En þegar þeir tala á alvarlegri nótum (um framhjáhald, fátækt og jafnvel dauðann) er það að sjálfsögðu sagt með grínrödd.“

Miðvikudagur 12. júní 2019
Flokkur
Materials