Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands

Lesandinn | Guðni Th. Jóhannesson

Lesandi vikunar er ekki af lakara taginu, og annálaður fyrir bókelsku. Guðni Th. Jóhannesson aðstoðaði um daginn við útdrátt á sigurvegurum í stórskemmtilegu lestrarátaki Ævars vísindamann (sem var nú haldið í síðasta sinn) og forsetinn mælti í leiðinni með bók:

„Ég leit við á Borgarbókasafninu í Grófinni um daginn, tók þátt í viðburði í tengslum við hið ofurfrábæra lestrarátak Ævars vísindamanns. Að því loknu rak ég augun í hillur með nýjum bókum og öðrum ritum sem safnið vakti sérstaka athygli á. Þar voru m.a. rit sem tengjast Njálu og sagnaarfinum almennt. Og þar var þessi gamla bók um beinskeyttar skoðanir Helga á Hrafnkelsstöðum í þeim efnum.

Ég hafði áður séð vitnað í Helga og haft gaman af; þarna var bóndi sem var ekki langskólagenginn en kunni Njálu utanbókar og reifst kinnroðalaust við hálærða fræðimenn og nóbelskáldið sjálft um fornbókmenntirnar. Verkið er skemmtilegt aflestrar, karlinn fer á kostum og Indriði G. Þorsteinsson stýrir því sem stýra þarf. Ég ætlaði mér ekkert að lesa þessa bók og vissi ekki af henni, þannig lagað. En þetta er eitt af því fjölmarga sem er svo yndislegt við bókasöfn; maður getur fundið svo miklu meira en það sem maður er að leita að.“

Hér fyrir neðan má finna tvær bækur Helga Haraldssonar auk nokkurra bóka Guðna forseta.

Miðvikudagur 3. apríl 2019
Materials