Þín eigin bókasafnsráðgáta kveður

Í Gerðubergi hefur sýningin Þín eigin bókasafnsráðgáta staðið uppi síðan í október 2021. Hún hefur sannarlega sett svip sinn á húsið, þar sem bækur hylja veggi og ótrúlegustu hlutir hafa orðið til úr sama efnivið: Bókum.

Sýningin byrjaði sem vangavelta: Hvað verður um afskrifaðar bækur? Þá spratt upp næsta spurning: Hvað verður um bækur sem fólk hættir að lesa? Hvert er gildi bóka? Er hægt að nýta úreltar bækur á skapandi hátt sem vekur okkur á sama tima til umhugsunar um þetta vandamál? Eða er þetta vandamál? 

Mörgum finnst erfitt að henda bókum, margir safna bókum. Borgarbókasafninu berast reglulega fyrirspurnir um hvort tekið sé við bókagjöfum. Yfirleitt er svarið nei, en þegar skapandi hugar fóru af stað í undirbúningi sýningarinnar, þá var auglýst eftir bókum. Og viðbrögðin létu ekki á sér standa!

Bækur hrönnuðust upp í Gerðubergi

Reyndar flæddi svoleiðis inn á safnið að það þurfti að lokum að segja stopp. Ekki fleiri bækur, takk og því miður. Næsta skref var að vinna úr efniviðnum. 

Hugmyndaríkt starfsfólk Gerðubergs fór á flug: Það langaði að virkja gesti Gerðubergs og fá þá samtímis til umhugsunar. Hvað er gaman að gera? Það er gaman að lesa og það er gaman að leika sér!
Úr urðu þrír ratleikir út frá ímyndaðri persónu, bókasafnaranum í Gerðubergi sem fékk nafnið Gerðubergur, en ratleikirnir voru unnir í samstarfi við rithöfundinn Ævar Þór Benediktsson.

Gersemar í Gerðubergi

Í ljósi þess að hugmyndin spratt upphaflega út frá vangaveltum um framhaldslíf bóka, olli tilhugsunin um hvað skyldi svo gera við bækurnar eftir sýninguna hugmyndasmiðunum töluverðum áhyggjum. Það var því ákveðið í upphafi að gestum væri frjálst að plokka bækur úr sýningunni og taka heim. Sýninguna sóttu margir bókasafnarar og sumir jafnvel með poka með sér til að bera gersemarnar heim. Hún tók því stöðugum breytingum og umsjónarfólk þurfti að stoppa í götin reglulega. En vonandi komust gersemarnar til þeirra sem kunna að meta þær, því gildi bóka er afstætt og síbreytilegt. 

Gersemar í Gerðubergi