Bókin Blinda eftir Ragnheiði Gestsdóttur

Leshringurinn Sveigur | Blind á það sem skiptir máli...

Það voru fjörugar umræður í leshringnum á Borgarbókasafninu Spönginni í gær. Til umræðu var bókin Blinda eftir Ragnheiði Gestsdóttur sem er hennar þriðja bók í flokki glæpasagna. Sólveig, aðalpersóna bókarinnar, er við fyrstu sýn ósköp venjuleg kona á sextugsaldri en með þunga áfallasögu að baki. Þegar sagan hefst fær hún þær fréttir að hún sé með ættgengan augnsjúkdóm og muni fljótlega missa sjónina. Á yfirborðinu virðist hún yfirveguð og lífið heldur áfram sinn vanagang en undir niðri er hún byrjuð að setja niður fyrir sér lista yfir allt sem hún þarf að klára áður en hún bindur enda á eigið líf. Og eitt atriði á þeim lista er að drepa mann.

Leshringurinn Sveigur í Borgarbókasafninu Spönginni

Miklar umræður voru um Sólveigu, tengsl hennar eða öllu heldur tengslaleysi við börnin, ákvörðun hennar um að gefast upp og yfirgefa þau og þennan mikla hefndarþorsta. Rætt var um plottið, og ekki síst lokasenuna og hvernig lesendur eru skildir eftir með alls konar spurningar. (Hér verður ekki farið í saumana á þessu til að eyðileggja ekki fyrir þeim sem eiga eftir að lesa bókina.) Það sem skilur kannski þessa glæpasögu frá mörgum öðrum er að við fylgjumst með „morðingjanum“ frá upphafi í stað þess að fylgja rannsóknarlögreglu eftir í störfum sínum í leit að hinum seka. Einnig er vel unnið með áhrif áfalla á fólk og samfélagsleg málefni sem staðsetja söguna vel í tíma, s.s. metoo byltinguna og kórónuveirufaraldurinn. Hópurinn var sammála um að bókin sé áhugaverð, svolítið lengi í gang en þó ansi spennandi.

Titill sögunnar, Blinda, vísar auðvitað beint í sjúkdóm Sólveigar en rætt var um hvort einnig mætti hugsa sér að höfundur væri að nota þetta sem eins konar myndgervingu. Sólveig væri ekki aðeins blind á augum heldur líka á tilfinningar sinna nánustu, blind á það sem skiptir máli í lífinu þegar upp er staðið. Endirinn gefur lesendum þó þá von að hún sé farin að „sjá“ betur… eða hvað?

Takk fyrir góða samveru, skemmtilegar og áhugaverðar umræður. Sjáumst í næsta leshring, mánudaginn 18. mars n.k. en þá verður bókin Eden ef Auði Övu Ólafsdóttur krufin til mergjar.

Leshringurinn Sveigur hefur verið starfræktur á Borgarbókasafninu Spönginni í 10 ár og eins og gengur þá hafa einhver dottið úr hópnum og önnur bæst við í gegnum tíðina. Þau sem hafa áhuga og vilja mæta í leshringinn á þessari önn geta sent línu eða slegið á þráðinn.

Hér má kynna sér leshringi og spjallhópa Borgarbókasafnsins.

 

Nánari upplýsingar veitir:
Guðrún Dís Jónatansdóttir
gudrun.dis.jonatansdottir@reykjavik.is | 411 6115

Flokkur
UppfærtMiðvikudagur, 21. febrúar, 2024 10:34
Materials