Ástbjörg Rut Jónsdóttir og Hjördís Anna Haraldsdóttir

Döff fræðslu- og skemmtirými opnað

Fræðslu-og skemmtirýmið AFF BIDD DÖFF opnar í Grófinni 16. apríl. Annað opinberra tungumála á Íslandi er íslenskt táknmál en sýnileiki Döff menningar og aðgengileiki málhafa táknmáls - Döff einstaklinga – er skertur. Í nýjustu útgáfu af Stofunni er Döff menning í brennidepli og notendur hvattir til að kynnast tungumálinu og koma með ábendingar um hvernig við gætum styrkt stöðu Döff. Við fengum að spyrja Ástbjörgu Rut Jónsdóttur og Hjördísi Önnu Haraldsdóttur nokkurra spurninga um rýmið sem þær setja upp. 

Hvar munuð þið staðsetja ykkar Stofu?

Stofan okkar verður á fyrstu hæðinni, í opna rýminu. Þar verður umfaðmandi og kósý rými, sem hægt er að koma sér fyrir í til að njóta og láta koma sér á óvart. Allt í kring verður fræðslu- og skemmtiefni og Stofan verður bæði opnuð og henni lokað með lifandi skemmtun. En þar verður einnig rými fyrir þau sem mæta, til að hafa áhrif, koma sínum hugmyndum á framfæri og jafnvel koma fram á lokaviðburðinum.

Þegar þið hugsið um styðjandi umhverfi fyrir samfélag, hvað er það fyrsta sem ykkur dettur í hug -  hverjum þurfum við að hlúa að?

Fyrir Döff fólk er styðjandi umhverfi og samfélag klárlega samfélag þar sem annað hvort allir geta talað táknmál eða þar sem það er gott og lítið takmarkað aðgengi að táknmálstúlkum, greiddum af hinu opinbera. Túlkar eru ekki bara fyrir Döff fólk til að hafa aðgengi að samfélaginu, heldur líka fyrir heyrandi til að skilja Döff og gera sig skiljanleg við Döff. Í rýminu er mikilvægt að hafa góða birtu og að því sé stillt upp þannig að fólk eigi auðvelt með að sjá hvert annað til að geta átt samskipti. 

Hvað er það sem þið viljið hvetja notendur til að deila með öðrum í ykkar Stofu?

Að fólk setji í hugmyndakassa:
 - Hugmyndir að menningarefni fyrir Döff
- Hugmyndir að því hvað mætti betur fara í samfélaginu fyrir Döff
- Sögur af eigin fordómum, ranghugmyndum ofl.
- Hvað gestir hafa lært af því að kíkja í stofuna hjá okkur.

Og svo að Döff taki þátt í Opnu sviði á lokaviðburðinum, með hvað sem þeim dettur í hug að gera.

Við þökkum kærlega fyrir samtalið og hlökkum til að sjá sem flest á opnun rýmisins þriðjudaginn 16. apríl kl. 17 og svo á lokaviðburðinum með opnu sviði sunnudaginn 21. apríl kl. 16.

Flokkur
UppfærtFöstudagur, 12. apríl, 2024 12:37