Styrkþegar og ráðherra - mynd fengin af vef stjórnarráðsins
Styrkþegar og Lilja Alfreðsdóttir menningar -og viðskiptaráðherra - mynd fengin af vef stjórnarráðsins

Veglegir styrkir úr Bókasafnasjóði

Á dögunum hlaut Borgarbókasafnið veglega styrki úr Bókasafnasjóði fyrir tveimur spennandi og afar ólíkum verkefnum – annarsvegar ráðstefnu um almenningsbókasöfn og hinsvegar Svakalegu sögusmiðjunni.
 

Almenningsbókasöfn sem samfélagsvettvangur

Dagana 18. – 20. október verður haldin norræn ráðstefna á Borgarbókasafninu Úlfarsárdal um almenningsbókasöfn sem samfélagsvettvang undir yfirskriftinni Nordic Libraries Together. Ráðstefnan er samstarfsverkefni Borgarbókasafnsins, Bókasafns Kópavogs, Amtsbókasafnsins á Akureyri og NINja, (Nordic Ifla Network), samráðsnets almenningsbókasafna á Norðurlöndunum.  Tilefni hennar er tvíþætt, annars vegar 100 ára afmæli Borgarbókasafnsins og hinsvegar beiðni NINja samráðsnetsins, um að árleg ráðstefna þeirra um almenningsbókasafnið verði haldin á Íslandi í ár. Starfsemi bókasafnanna snýst sífellt meira um fólk og samfélag og að bjóða upp á rými fyrir alla. Það er að þessu hlutverki almenningsbókasafna sem sjónum verður beint á ráðstefnunni auk þess sem hún er mikilvægur vettvangur fyrir starfsfólk bókasafna á Norðurlöndunum til að hittast, fræðast og mynda dýrmæt fagleg tengsl.

Lykilfyrirlesarar ráðstefnunnar verða tveir, bandaríski félagsfræðingurinn Eric Klinenberg og hollenski arkitektinn Jan David Hanrath. Eric hefur með vönduðum rannsóknum vakið athygli á nauðsyn þess að hlúa að samfélagslegum innviðum og bent á bókasafnið sem eina mikilvægustu stofnun samfélagsins. Í bók sinni, Palaces for the People, bendir hann á að hanna þurfi opinber rými með þetta í huga en bókin hefur haft mikil áhrif á hvernig horft er til almenningsrýmis. Jan hefur sérhæft sig í hönnun bókasafna og hefur sem fyrrum bókasafnsstarfsmaður góða innsýn í starfsemi þeirra. Jan hefur verið ráðgefandi varðandi hönnun bókasafna og er hluti af hönnunarteymi nýs Borgarbókasafns í Grófinni. Enn fremur er hann hluti af skapandi samstarfsvettvangi sem kallast Ministry of Imagination, sem vinnur að því að hjálpa bókasöfnum og menningarstofnunum að láta framtíðardrauma sína rætast. 

Þessu til viðbótar verða margar áhugaverðar kynningar á ráðstefnunni á verkefnum frá öllum Norðurlöndunum.

Norræn bókasafnaráðstefna verður haldin í Úlfarárdal 18. - 20. október


Fjölbreyttar leiðir til að semja sögur

Svakalega sögusmiðjan er hvetjandi vettvangur fyrir krakka á aldrinum 9 – 12 ára sem vilja skrifa sögur og myndskreyta. Þetta verður í annað sinn sem smiðjan verður í boði á Borgarbókasafninu en hún vakti mikla lukku í fyrra þegar hópur barna samdi fjölbreyttar og fallega myndskreyttar sögur.  Smiðjan er opið og skapandi rými fyrir krakka þar sem lögð eru fram verkefni sem þátttakendum er frjálst að vinna úr á sinn hátt. Tilgangurinn er fyrst og fremst að börnin njóti þess að skapa og læri um leið fjölbreyttar leiðir til að semja sögur.
Leiðbeinendur í smiðjunni verða líkt og áður þær Eva Rún Þorgeirsdóttir, handrits -og rithöfundur, sem meðal annars hefur skrifað spennuseríuna um Lukku og Blær Guðmundsdóttir teiknari, barnabókahöfundur og grafískur hönnuður sem hefur meðal annars myndlýsti fjölda barnabóka og skrifaði söguna Sipp, Sippsippanipp og Sippsippanippsippsúrumsipp – systurnar sem ætluðu sko ekki að giftast prinsum.

Haldnar verða tvær sögusmiðjur veturinn 2023 - 2024, haust og vor, og lýkur hvorri smiðju fyrir sig með útgáfu tímarits sem þátttakendur setja saman. 

Svakalega sögusmiðjan