Efri: Hildur Björgvinsdóttir, verkefnastjóri viðburða og fræðslu og Martyna Karolina Daniel, sérfræðingur fjölmenningarála á Borgarbókasafninu ásamt Þorsteini Víglundssyni forstjóra Hornsteins og Gunnari Þór Ólafssyn framkvæmdastjóra sölusviðs BM Vallár.

Spjöllum með hreim hlýtur verkefnastyrk

In English

Verkefnið Spjöllum með hreim hlaut á dögunum styrk úr samfélagssjóði BM Vallá, Hjálparhellunni. 

Spjöllum með hreim er viðburðaröð þar sem þeim sem eru að læra íslensku, byrjendum og lengra komnum, gefst tækifæri til að hittast vikulega á Borgarbókasafninu Grófinni, æfa sig að tala málið undir handleiðslu kennara og kynnast öðrum sem eru líka að læra tungumálið. Notaðar eru fjölbreyttar leiðir til að brjóta ísinn og bæta orðaforðann, borðspil, föndur, sögur og safnaheimsóknir. 

Allir kennarar í verkefninu hafa áralanga reynslu í að kenna íslensku sem annað mál og hlökkum við mikið til að vinna áfram með þeim á nýju ári. 

Fáum okkur kaffi/te, spjöllum og höfum það notalegt saman. Þátttaka er ókeypis og engin skráning. 

Dagskrá vor 2024.

Saga Jen Zhang og Garance Merholz mæta reglulega á Spjöllum með hreim og segja það frábæra leið til að læra tungumálið og kynnast nýju fólki. Hér má lesa viðtal við Sögu og hér má lesa viðtal við Garance þar sem hvor um sig deilir reynslunni af viðburðunum og gleðinni. 

Þökkum MB Vallá kærlega fyrir stuðninginn og hlökkum til að halda áfram að spjalla á íslensku, með hreim, á nýju ári.

Styrkhafar úr Samfélagssjóðnum ásamt fulltrúum frá BM Vallá og Hornsteini

Hér má lesa um önnur verkefni sem hlutu styrk úr sjóðnum, óskum við styrkþegum innilega til hamingju.

Flokkur
UppfærtFimmtudagur, 28. desember, 2023 16:33