Jóladagatal 2022 | Jólaævintýri Kötlu og Leós

Jólaævintýri Kötlu og Leós eftir Hremmu (Hrafnhildi Emmu Björnsdóttur) er jóladagatal Borgarbókasafnsins og Reykjavíkur Bókmenntaborgar árið 2022. Fallegt ævintýri í desember um systkinin Kötlu og Leó sem búa með pöbbum sínum þeim Grími og Kára. Þau komast á snoðir um dularfulla bók sem veitir innsýn inn í leyndardóma jólanna. Þegar Kári pabbi þeirra lendir í háska uppi á jökli stuttu fyrir jólin þá kemur bókin að óvæntum notum. Saga um vináttu og sanna jólatöfra sem vernda frá hættulegum náttúruöflum, um hjálpsemi, gjafmildi og auðvitað líka um Grýlu og jólasveinanna.

Jóladagatalið má finna á öllum helstu hlaðvarpsveitum. Smellið hér til að hlusta á Spotify eða notið spilarann hér fyrir neðan.

1. kafli

Það er fallegur laugardagsmorgunn í desember, Katla Ósk borðar morgunmat með pöbbum sínum Grími og Kára. Í svefnherbergi á efri hæð hússins er Leó Már, eldri bróðir Kötlu, að spila tölvuleik þar sem hann fjarstýrir bíl gegnum stóra borg.

„Leó!“ kallar Kári úr eldhúsinu, „komdu nú niður, grauturinn fer að verða kaldur!“

„Já pabbi! Ég kem rétt strax!“ kallar Leó til baka en það tekur hann smá stund að slökkva á tölvunni og koma sér niður.

Fjölskyldan hjálpast að við að ganga frá eftir morgunmatinn og leggur svo af stað úr Hafnarfirðinum í átt að Kringlunni. Þau þurfa að versla jólagjafir og kaupa nýjan aðventukrans í stað þess sem Moli eyðilagði síðustu jól. Moli var hundurinn þeirra sem dó síðasta sumar. Katla og Leó sakna hans mikið en pabbar þeirra vilja ekki nýjan hund alveg strax.

Kringlan er hátíðleg á þessum fyrsta degi desembermánaðar. Jólaljós lýsa upp skammdegið og jólalög eru spiluð í hverri einustu búð. Fjölskyldan röltir milli verslana og fyllir taupoka af verðandi gjöfum. Katla stansar fyrir framan leikfangabúð því rauð leikfangalest fangar  athygli hennar. Feðgarnir taka ekki eftir neinu og ganga áfram í átt að næstu verslun.

Fæturnir bera Kötlu hugfangna í átt að lestinni og hún ímyndar sér að hún stýri lestinni eftir teinum fram hjá stórum trjám og fallegu landslagi. Hún ímyndar sér að lestin takist á loft og svífi hátt upp í skýin.

Feðgarnir uppgötva skyndilega fjarveru Kötlu og æða um Kringluna í leit að henni. Það er Kári sem finnur Kötlu inni í leikfangabúðinni, þau rölta saman fram og rekast þá einmitt á Grím og Leó sem koma hlaupandi úr sitthvorri áttinni.

„Katla, þú mátt ekki láta þig hverfa svona,“ segir Grímur lafmóður og knúsar hana áður en  þau rölta  fjögur saman út á bílastæðið.

Þegar þau stíga út úr bílnum heima tekur Katla eftir því að íslenska fánanum er flaggað í garðinum við hliðina á húsinu þeirra.

„Pabbi?“ segir hún, „já,“ svara Grímur og Kári í kór.

„Af hverju er Erla gamla að flagga?“

Kári svarar, „Af því að í dag er fullveldisdagurinn.“

„Hvað er það?“

„Á þessum degi, 1. desember, árið 1918 varð Ísland að frjálsu landi. Danmörk, sem hafði áður ráðið yfir okkur, viðurkenndi að við værum fullvalda ríki,“ segir Kári og Grímur bætir við, „1. desember er einn af fánadögunum. Þá má fólk endilega draga fána að húni.“

„Ég skil,“ segir Katla. „Takk.“

Grímur er leikari og þarf að fara upp í leikhús rétt fyrir kvöldmat en krakkarnir eiga kósí kvöld með Kára.

Þótt Grímur vinni stundum á kvöldin gleymir hann aldrei að kyssa Kötlu á kollinn og bjóða henni góða nótt.

2. kafli

Það er Katla sem man eftir að kveikja á fyrsta aðventukertinu, Spádómskertinu. Hún fær hjálp frá Kára pabba sínum sem fer svo inn í eldhús að aðstoða manninn sinn við að laga kvöldmatinn. Súsí frænka kemur í kvöldmat.

Súsí er föðursystir Gríms og uppáhaldsfrænka systkinanna Kötlu og Leós. Hún heitir fullu nafni Súsanna Íris Einarsdóttir en er alltaf kölluð Súsí. Hún var einu sinni gift manni sem hét Guðmundur en hann var alltaf kallaður Gvendur. Þau hjónin voru mjög ævintýragjörn og voru alltaf á einhverjum ferðalögum.

Fyrir 20 árum fluttu foreldrar Gríms ásamt yngri systkinum hans til Svíþjóðar, þá fékk hann að búa hjá Súsí og Gvendi svo hann gæti gengið í skóla á Íslandi. Katla og Leó, þekkja Gvend í gegnum sögurnar hennar Súsíar en hann lést áður en þau fæddust. Súsí elskar að segja sögur og ævintýri. Hún trúir á álfa og drauga og stundum gerist hún norn og les í lófa eða tebolla. Einu sinni vildi Katla láta lesa í bollann sinn en teið var svo vont á bragðið að Súsí las í kakóbolla í staðinn. „Þú átt eftir að verða hetja í ótrúlegu og stórkostlegu ævintýri,“ sagði Súsí þá um leið og hún sneri bollanum. Síðan hefur Katla verið dugleg að lesa ævintýrabækur svo hún verði örugglega tilbúin þegar ævintýrið hefst.

Súsí mætir tímanlega í kvöldmat. Hún er klædd í sægrænan kuldagalla og skartar fjólubláu hári. Hún heilsar Grími, Kára og Kötlu og tekst einnig að láta Leó hætta í tölvunni. Hún færir Leó pakka þar sem leynist gömul og notuð teikniblokk.

„Takk Súsí,“ segir Leó.

„Verði þér að góðu. Katla, þú færð líka pakka, en bara seinna,“ lofar Súsí.

Þau setjast öll við matarborðið og Súsí segir þeim söguna af því þegar Gvendur heitinn fann teikniblokkina.

„Fyrir 47 árum, vorum við Gvendur saman í fuglaskoðunarklúbbnum Álkunum, við vorum öll algjörir furðufuglar. Bara nokkrum vikum eftir brúðkaupið okkar Gvends fór klúbburinn í ferðalag eftir suðurlandi, það var stutt í jólin og Álkurnar vildu taka góðar jólakortsmyndir af fuglum í vetrarbúningi. Ég fór ekki með því ég var á fullu að æfa fyrir eins manns óperu sem ég hugðist sýna á aðfangadag.

Hópurinn var nýstiginn út úr rútunni þegar Gvendur sá einhverja hreyfingu uppi á Mýrdalsjökli. Hann Gvendur var alltaf svo forvitinn en líka svakalega utan við sig, þessi elska. Hann lagði af stað í átt að jöklinum og kvaddi hvorki kóng né prest … eða klúbbinn.

Hann óð snjó í heilan klukkutíma áður en hann komst loksins að rótum Mýrdalsjökuls.

Hann Gvendur átti erfitt með að klífa jökulinn vegna gönguskónna. Þeir voru svo ofgengnir að sólarnir voru orðnir rennisléttir.

En hann Gvendur minn dó ekki ráðalaus, hann tók upp úr töskunni sinni hárburstana sína og batt þá undir skóna. Sjáið til, hann notaði alltaf tvo hárbursta og tvo tannbursta til að vera sneggri að bursta á morgnana. Hárburstana hafði Gvendur alltaf meðferðis því hann vildi halda hárinu fínu. Þetta var eini dagurinn sem Gvendur hafði hárið í rugli, dagurinn þegar hann notaði hárbursta til að klífa Mýrdalsjökul.

Þegar upp var komið blasti við honum heil víðátta af snjó og klaka. Gvendur fór að horfa eftir einhverri hreyfingu, sá enga en rak þá augun í fótspor á jöklinum. Þetta voru spor eftir stór stígvél. Gvendur fylgdi sporunum sem hlykkjuðust um allan jökulinn, upp á skafla og yfir sprungur. Allt í einu hurfu sporin en hvergi var maður sjáanlegur. Í snjónum þar sem sporin hurfu lá þessi gamla teikniblokk. Gvendur tók blokkina með sér af jöklinum og kom með hana heim. Hún hefur verið í kassa heima hjá mér í 47 ár.

Ég fann hana í síðustu viku og nú vil ég gefa þér hana, Leó, í þeirri von að þú notir hana. Ef þú opnar blokkina þá sérðu að einhver hefur teiknað heilmikið í hana en ekki voru það við Gvendur. Aftast í blokkinni eru ennþá nokkrar auðar blaðsíður sem ég vil að þú fyllir með þínum teikningum.“

Seinna um kvöldið leggur Leó teikniblokkina á skrifborðið sitt og kveikir svo á tölvunni í stað þess að fara að sofa.

3. kafli

Leó á erfitt með að vakna og þess vegna verða systkinin næstum því sein í skólann. Kennarinn er byrjuð að lesa upp þegar Katla sest hjá Margréti vinkonu sinni.

Margrét hallar sér að Kötlu og hvíslar: „Ég kláraði Ronju Ræningjadóttur um helgina.“

„Hvernig fannst þér?“ hvíslar Katla á móti.

„Hún var æði,“ hvíslar Margrét brosandi.

Nú geta þær loksins farið í Ronju-leik í frímínútum.

Þær hittast á leynistaðnum sínum inni í runna og leggja á ráðin.

„Við þurfum að fara varlega ef við ætlum að komast heim í Matthíasarkastala,“ segir Katla.

„Akkuru?“ spyr Margrét með skrækróma rassálfaröddu.

Katla flissar en heldur svo áfram, „við þurfum að passa okkur að drukkna ekki í ánni og verða ekki hræddar ef við hittum grádverga eða Borkaræningja.“

„Akkuru?“ spyr rassálfa-Margrét

„Við þurfum líka að passa okkur á skógarnorninni, hún má alls ekki sjá okkur því hún er stórhættuleg.“ Katla bendir á Ólöfu skólaliða sem hefur ekki hugmynd um að hún sé skógarnorn.

„Akkuru gerir hún svona?“ spyr Margrét með skrækustu rassálfaröddinni.

„Æi, rassálfur, fari þú í norður og niðurfallið,“ segir Katla og þær springa úr hlátri. Síðan leggja þær af stað í ævintýri.

Þær synda í ánni (snjó) til að æfa sig að drukkna ekki. Þær æfa sig að vera ekki hræddar við grádverga eða Borkaræningja. Þær fela sig þegar skógarnornin fer að rölta um og komast loksins óhultar upp í Matthíasarkastala. Þar hitta þær Tind, bekkjabróður sinn.

„Sæll Skalla-Pétur,“ segir Katla „vilt þú stökkva yfir Helvítisgjána með okkur?“

Margrét flissar en Tindur er til í að vera með. Þau stökkva fram og til baka yfir Helvítisgjána í kastalanum. Þau stökkva þangað til bjallan hringir, drífa sig þá niður úr kastalanum og reyna að komast óséð inn en Ólöf tekur eftir þeim í felum.

„Katla, Margrét, Tindur,“ kallar hún, „ég sé ykkur, bjallan er búin að hringja, drífið ykkur inn.“

Katla stendur upp og kallar, „ó, nei! Skógarnornin sá okkur, við verðum að flýta okkur áður en hún nær í systur sínar.“

Þau hlaupa hlæjandi inn en Ólöf skilur ekki neitt.

Katla átti frábæran skóladag alveg fram að hádegismat en þá kom Gabríel hlaupandi inn í matsal með kennara á hælunum, Gabríel rakst óvart í Kötlu með þeim afleiðingum að hádegismaturinn hennar datt í gólfið. Gabríel er hrekkjusvín úr bekknum hans Leós. Hann er alltaf að gera eitthvað sem hann má ekki gera og í dag var hann gripinn glóðvolgur að krota á vegg í skólanum.

Leó, Tindur og Margrét hjálpa Kötlu að þrífa upp matinn sem datt í gólfið og fylgja henni að skrifstofunni þar sem Leó hringir í Súsí. Hún kemur stuttu seinna í skærbleikum jakkafötum með hrein föt fyrir Kötlu. Súsí situr með krökkunum þangað til Katla hefur jafnað sig og fengið að borða. Katla þakkar Súsí fyrir, knúsar hana bless og flýtir sér í íþróttatíma ásamt Tindi og Margréti.

4. kafli 

„Leó. Leó? Leó! Viltu gjöra svo vel og vakna.“

Leó hrekkur upp og sér bekkjarsystkini sín stara á sig.

„Leó, þú átt að sofa á nóttunni, ekki í tíma hjá mér,“ segir Gestur, kennarinn hans, og heldur áfram að lesa upp. Leó hafði enn einu sinni verið í tölvunni langt fram eftir nóttu og svefnleysið byrjað að hafa áhrif á skólann.

Gestur kennari útdeilir yfirförnu stærðfræðiprófi sem þau tóku fyrir viku, Leó er góður í stærðfræði en hann lærði ekki fyrir þetta próf því tölvan hafði heltekið hann, það sést á einkuninni sem er óvenju lág. Hann flýtir sér að fela prófið ofan í tösku. Gréta, besta vinkona Leós, klárar að fara yfir sitt próf og snýr sér svo að Leó.

„Bara ein villa, hvernig gekk þér?“

„Bara vel,“ lýgur Leó og lofar sjálfum sér að læra betur fyrir næsta próf.

Leó er dauðþreyttur allan skóladaginn, hann á erfitt með að einbeita sér í stærðfræði og sofnar í miðju snjóstríði úti í frímínútum. Í myndmennt sitja Leó og Gréta saman. Hún málar úlf sem spangólar undir fullu tungli en Leó málar bíl úr tölvuleiknum sínum. Úti í horni situr Gabríel einn og einbeittur, aðeins myndmenntakennarinn tekur eftir listaverkinu sem Gabríel er að mála. Gabríel þykir best að vera í myndmennt því kennarinn þar er sú eina sem býst ekki við hinu versta af Gabríel.

Eftir skóla býður Gréta Leó að vera með í fótbolta en hann lýgur að bestu vinkonu sinni til að komast sem fyrst heim í tölvuna.

Leó flýtir sér heim og gengur inn í tómt húsið, pabbar hans eru í vinnunni og Katla á kóræfingu.

Hann kveikir strax á tölvunni og plantar sér fyrir framan skjáinn. Hann stýrir bílnum eftir svakalegri braut sem hlykkjast gegnum stóra borg, Leó sveigir fram hjá öllum hindrunum og endamarkið er í augsýn þegar skyndilega slokknar á tölvunni og allt verður svart. Leó þreifar fyrir sér í myrkrinu og finnur farsímann sinn, kveikir á vasaljósinu og lítur í kringum sig. Hann þorir ekki að fara fram svo hann hringir í pabba sinn.

„Kári,“ svarar pabbi hans.

„Hæ, pabbi. Það er allt rafmagnslaust hérna heima, hvar er rafmagnstaflan og hvernig slæ ég rafmagninu aftur inn?“

„Það þýðir ekkert núna,“ segir Kári „ég gleymdi að láta þig vita í morgun að það verður rafmagnslaust í hverfinu til klukkan fjögur í dag. Það eru einhverjar viðgerðir í gangi. Þú verður að finna þér eitthvað annað að gera en að vera í tölvunni.“

Leó líst ekkert á það og andvarpar pirraður.

„Ég þarf að halda áfram að vinna. Ég elska þig,“ segir Kári.

„Ég elska þig líka pabbi,“ svarar Leó.

„Sjáumst í kvöld,“ segir Kári

„Já, sjáumst,“ segir Leó og skellir á. Hann situr um stund í myrkrinu og bölvar rafmagnsleysinu, síðan beinir hann vasaljósinu um herbergið í leit að einhverju skemmtilegu. Á skrifborðinu liggur teikniblokkin frá Súsí. Leó finnur pennaveskið sitt, sest við skrifborðið og stillir upp símanum svo ljósið lýsi á teikniblokkina. Hann flettir í gegnum blokkina og sér teikningar af allskonar gamaldags leikföngum, myndirnar eru allar gráar. Aftast telur Leó sex auðar blaðsíður, hann opnar pennaveskið sitt og byrjar að teikna á eina þeirra. Leó vandar sig mikið við að teikna bílinn úr tölvuleiknum og er svo einbeittur að hann tekur varla eftir því þegar rafmagnið kemur aftur á.

Leó leggur lokahönd á teikninguna, gengur frá litunum, lokar teikniblokkinni og er á leið út úr herberginu þegar hann heyrir undarlegt hljóð. Eins og einhver hafi rekist í litlar bjöllur. Bjölluhljóðin fjara út og Leó snýr sér við. Ofan á teikniblokkinni er glansandi leikfangabíll, alveg eins og sá sem Leó var að teikna. Hann hleypur rakleiðis að skrifborðinu, tekur upp bílinn og grandskoðar hann. Hann opnar teikniblokkina og sér að nýlitaða myndin hans er orðin grá.

5. kafli

Leó vaknar hress því hann fór ekki í tölvuna í gærkvöldi. Hann er að skoða töfrateikniblokkina og dularfulla bílinn þegar Kári kemur inn í herbergi til að vekja hann. Leó er fljótur að fela teikniblokkina og bílinn undir sænginni. Kári hrósar Leó fyrir að vera vaknaður og biður hann að fara í föt og koma niður að borða.

Katla er hinsvegar komin með hita og verður heima í dag með Kára. Hann vinnur hjá Veðurstofunni og getur því stundum unnið heima. Katla sefur fram að hádegi og kemur þá nokkuð hress niður að borða. Kári smyr handa þeim sitthvora kringluna og hellir djús í tvö glös. Þá allt í einu hristist allt og Katla sér gárur í djúsglasinu. „Þetta var jarðskjálfti,“ segir Kári spenntur og hringir í Catarinu, samstarfskonu sína á Veðurstofunni.

En feðginin Kári og Katla voru ekki þau einu sem fundu fyrir þessum skjálfta. Marga kílómetra í burtu, á miðjum jökli er rammgerð tréhurð falin á bak við háan snjóskafl. Inn af henni er gríðarstór hellir fullur af húsgögnum og frægum tröllum. Skömmu fyrir skjálftann stóð Grýla í eldhúsinu og skipaði Leppalúða fyrir. Hann var að setja í deig.

„Jæja, nú er deigið alveg að verða tilbúið,“ segir Grýla, „það seinasta sem þú þarft að gera er að bæta við tylft af eggjum.“

Leppalúði finnur tólf egg í bakka og ætlar að hvolfa þeim ofan í skálina.

„Ekki með skurninni Lúðinn þinn!!!“ gargar Grýla og grípur í hendurnar á honum. „Þú átt að brjóta eggin varlega eins og ég hef sýnt þér hundrað og sjötíu sinnum!“

Leppalúði leggur eggjabakkann á bókastafla við hliðina á skálinni. Hann vandar sig mikið við að brjóta fyrsta eggið. Um leið og eggið dettur skurnlaust ofan í skálina byrjar jarðskjálftinn. Eggjabakkinn hoppar af bókastaflanum og ofan í skálina þar sem ellefu egg brotna og skurn týnist í hvítu hveiti.

„Nei, nei, nei, nei!! Ekki deigið!“ veinar Grýla.

„Var þetta Hurðaskellir að koma heim?“ spyr Leppalúði ringlaður.

„Bölvaðir grjóthnullungar, klaki og endalausir jarðskjálftar!“ Grýla arkar reiðilega um eldhúsið. „Hverjum datt í hug að búa uppi á fjalli?!“

„Þér elskan mín,“ segir Leppalúði og hörfar þegar Grýla horfir reiðilega á hann.

Stúfur kemur inn í eldhús.

„Mamma,“ segir hann.

„Já, Stúfur minn,“ svarar Grýla blíðlega.

„Sjáðu hvað gerðist í skjálftanum.“ Stúfur sýnir henni bangsa.

Bangsinn er nokkuð venjulegur nema önnur hendin er öll í bylgjum. Stúfur heldur einnig á teikniblokk eins og Leó á.

„Æi, þú verður að teikna annan bangsa handa honum Sveini í Hafnarfirðinum,“ segir Grýla. „Hann Svenni litli er búinn að vera svo stilltur í allan vetur. Gefðu jólakettinum þennan, hann elskar að naga leikföng.“

Stúfur gefur jólakettinum jarðskjálftabangsann og fer svo aftur inn í borðstofu. Þar sitja bræður hans við stórt borð og teikna gjafir í töfrateikniblokkir. Borðið er fullt af leikföngum auk þess sem allir jólasveinarnir hafa stóra poka sér við hlið til að geyma leikföngin í.

Grýla gægist inn í borðstofuna og rekur sérstaklega á eftir Stekkjastaur, því það eru aðeins sex nætur þangað til hann fer til byggða.

6. kafli

Leó gengur betur í skólanum og líður almennt betur þegar hann sleppir tölvunni á kvöldin. Í gær fór hann meira að segja út í snjóinn eftir kvöldmat með fótbolta og æfði sig að halda  honum á lofti í kuldagallanum.

Bekkurinn hans Leós hefur safnað nógu mörgum hrósmiðum til að halda bekkjarveislu. Eftir lýðræðislega kosningu var ákveðið að heimsækja félagsmiðstöðina eftir hádegi. Leó hleypur beint að leikjatölvunni, grípur fjarstýringu og sest í sófann, kunnuglegt merki birtist á skjánum. En þá verður honum litið að biljarðborðinu þar sem allir bestu vinir hans standa. Hann leggur frá sér fjarstýringuna og fer í staðinn að spila biljarð með vinum sínum.

Það eru íþróttir í síðasta tíma dagsins og íþróttakennarinn hefur stillt upp þrautabraut fyrir uppáhaldseltingaleik allra krakka, Tarsan-leikinn. Krakkarnir hlaupa nánast allan íþróttatímann til að flýja undan vestisklædda parinu sem er’ann. Æsispennandi leikur þar sem má sveifla sér í köðlum og hoppa yfir hindranir.

Leó kemur glaður heim og verður þá enn spenntari því í kvöld mun Grímur frumsýna leikrit og hefur boðið Kára, Leó og Kötlu að koma í leikhúsið að sjá.

Leikhúsið er komið í jólabúning, Katla telur fimm jólatré en jólakúlurnar eru óteljandi. Sætin þeirra eru framarlega og Katla sest á milli Leós og pabba síns. Dyrnar lokast, ljósin dofna og tjaldið rís. Á sviðinu er heilt heimili með stofu, eldhúsi og svefnherbergi. Í eldhúsinu er kona að útbúa mat, Grímur kemur inn á svið og kyssir konuna á munninn. Þau eru greinilega að leika hjón.

Katla hefur aldrei áður séð leikrit þar sem enginn syngur og allir eru í venjulegum fötum.

Þau eru bara að tala og Katla skilur ekki alveg af hverju einn leikarinn er alltaf að öskra á pabba hennar. Áhorfendurnir hlæja mikið, sérstaklega þegar pabbi hennar talar en Katla nær samt ekki alveg hvað er svona fyndið. Hún springur samt úr hlátri þegar pabbi hennar hellir heilum potti af súpu yfir leikarann sem öskrar svo mikið.

Í lokin klappa allir fyrir leikurunum meðan þau hneigja sig. Þegar Grímur hneigir sig stendur Katla upp og hrópar af ánægju. Leikstjórinn kemur upp á svið og svo fær allt listafólkið blómvendi. Katla er orðin þreytt í lófunum eftir allt klappið og er fegin þegar tjaldið sígur loksins niður aftur og lófatakið breytist í skvaldur. Kári tekur í höndina á Kötlu svo hún týnist ekki og leiðir hana út úr salnum.

Þökk sé Grími þá mega Katla, Leó og Kári gera svolítið sem aðrir áhorfendur mega ekki. Þau fá að fara baksviðs og hitta leikarana. Katla hleypur beint í sveitt fangið á pabba sínum og óskar honum til hamingju með frumsýninguna.

„Hvernig fannst þér leikritið?“ spyr Grímur.

„Mér fannst fyndið þegar þú helltir súpunni yfir karlinn sem var dónalegur við þig,“ segir Katla.

„Það fannst mér líka,“ segir leikarinn sem er ennþá með súpu í hárinu. „Til hamingju með frumsýninguna,“ segir hann við Grím.

„Takk sömuleiðis,“ segir Grímur og þeir knúsast. Katla starir agndofa á þá.

„Til hamingju með þetta frábæra leikrit pabbi,“ segir Leó og knúsar pabba sinn.

„Til hamingju ástin mín,“ segir Kári og kyssir Grím.

„Takk fyrir að koma, þið öll,“ segir Grímur „það er alltaf gaman að vita af kunnuglegum andlitum í salnum.“

Katla og Leó þurfa að fara heim því það er skóli á morgun, Grímur knúsar þau bæði góða nótt og Kári fer með þau heim. Listafólkið ætlar að skemmta sér í tilefni frumsýningarinnar og þess vegna verður Grímur eftir í leikhúsinu.

7. kafli 

„Hún á afmæli í dag,
hún á afmæli í dag,
hún á afmæli hún Súsí,
hún á afmæli í dag.“

Í dag er Súsí 75 ára. Fjölskyldan, Katla, Leó, Grímur og Kári, vekja hana með myndsímtali og syngja fyrir hana afmælissönginn.

„Ji hvað ég er heppin með með fjölskyldu,“ segir Súsí klökk. „Ég hef svo sannarlega dottið í lukkupottinn með ykkur fjögur. Ég sem var næstum því búin að gleyma að ég ætti afmæli. Þakka ykkur kærlega fyrir.“

Katla snýr sér að Leó og hvíslar,„hvernig er hægt að gleyma afmælinu sínu?“ Leó yppir öxlum.

„Ertu búin að plana eitthvað sérstakt í kvöld?“ spyr Grímur.

„Já, við Frost ætlum að spila,“ segir Súsí.

„Grímur keypti læri sem við ætluðum að deila með þér,“ segir Kári. „Það er nóg handa okkur og Frost ef hán vill vera með.“

„Jú, takk,“ segir Súsí. „Hán er yfirleitt svangt, ég læt hán vita og við sjáumst þá öll í kvöld.“

Katla er spennt fyrir afmælisveislunni um kvöldið en hún gleymir henni alveg þegar Gabríel, hrekkjusvínið, gerir grín að henni úti í fyrstu frímínútum. Hann kallar hana smábarn fyrir að trúa enn á jólasveinana. Katla verður svo sár að hún hleypur grátandi inn og beint í fangið á Leó. Hann er góður stóri bróðir og vill láta henni líða betur svo þau mæla sér mót í seinni frímínútunum þar sem hann sýnir henni teikniblokkina. Leó tekur upp svartan lit og flettir að auðri blaðsíðu í bókinni.

„Manstu eftir bangsanum sem Moli skemmdi? Pandabirninum sem þér þótti svo vænt um?“ spyr Leó.

„Já, hún hét Karlotta og ég fékk hana þegar ég var pínulítil,“ segir Katla og fylgist forvitin með því sem Leó er að gera. Hann vandar sig við að teikna Karlottu á auðu blaðsíðuna.

„Oooog tilbúin,“ segir hann. „Leit hún ekki svona út?“

„Jú, en…,“ segir Katla

„Sjáðu hvað gerist núna,“ segir Leó. Hann stingur litnum í vasann og lokar bókinni. Leó horfir spenntur á bókina en Katla skilur ekki hvað er í gangi. „Eftir hverju erum við að bíða?“ spyr hún.

„Uss… ekki trufla töfrana,“ hvíslar Leó.

„Töfrana? Hvaða töfra? Leó, töfrar eru bara til í ævin…“

Skyndilega heyrist bjölluómur og Karlotta birtist í fanginu á Kötlu.

„…týrum.“ Katla trúir ekki sínum eigin augum. Hún lítur á teikniblokkina, á Leó, á Karlottu og aftur á Leó.

„HVERNIG FÓRSTU AÐ ÞESSU?“ æpir hún.

„Ussss…,“ segir Leó og grípur fyrir munninn á henni. „Þetta er leyndarmál, þú mátt ekki segja neinum, ekki einu sinni pabba og pabba.“

„Má ég prófa?“ spyr Katla og ætlar að grípa í teikniblokkina en Leó kippir henni í burtu.

„Nei,“ segir Leó. „Það eru bara fjórar tómar blaðsíður eftir og ég ætla að spara þær.“

Bjallan hringir og systkinin hlaupa inn. Katla felur Karlottu pandabjörn í töskunni sinni og passar að segja ekkert við pabba sína né Súsí um kvöldið. Pabbarnir græja matinn en krakkarnir og Súsí fara inn í stofu þar sem Frost er búið að setja upp spil. Frost er mjög heppið í spilum og vinnur öll spilin. Pabbarnir kalla í mat og þau borða öll saman bragðgott lambalæri með miklu meðlæti.

8. kafli 

Það snjóaði mikið í nótt svo Kári og Leó fara saman út að moka snjó úr innkeyrslunni. Grímur er að þvo þvott en Katla stelst inn í herbergið hans Leós og finnur töfrateikniblokkina. Hún fer með hana inn í sitt herbergi og byrjar að teikna á eina auða blaðsíðu. Hún vandar sig mikið við að teikna Mola, gamla hundinn þeirra.

Úti eru Kári og Leó á fullu að moka snjó.

„Ég hef tekið eftir því að þú ert minna að hanga í tölvunni,“ segir Kári allt í einu. „Ég vildi bara segja þér hvað ég er ánægður með þig.“

„Af því ég er ekki í tölvunni?“ spyr Leó.

„Allt er gott í hófi. Tölvan getur verið skemmtileg en þú varst hættur að gera nokkuð annað,“ segir Kári. „Við pabbi þinn vorum farnir að hafa áhyggjur. En þú virðist hafa áttað þig sjálfur og mér sýnist þér líka líða miklu betur núna. Ég er stoltur af þér.“

„Takk, pabbi,“ segir Leó.

 Allt í einu hættir Kári að moka og stingur skóflunni í skafl.

„Vissirðu að þegar ég var lítill polli, þá bjó ég í rauða húsinu aðeins neðar í götunni. En ég kom oft hingað uppeftir því dóttir hennar Erlu, Ásgerður, bjó hérna þá og hún átti hund.“

Kári beygir sig niður og tekur upp lúku af snjó.

„Við tvö og Aska, hundurinn hennar, lékum okkur oft í snjónum á veturna og þá fannst Ösku skemmtilegast þegar við Ásgerður fórum í SNJÓSTRÍÐ.“

Kári kastar snjóbolta beint í Leó. Leó bregður en er fljótur að henda frá sér skóflunni og hnoða sinn eigin bolta. Feðgarnir skemma næstum alla vinnuna sína en skemmta sér konunglega að kasta snjó hvor í annan, alveg þangað til einn snjóboltinn fer næstum því í Erlu gömlu sem er að fara út með ruslið.

„Guð! Fyrirgefðu okkur, elsku Erla,“ kallar Kári.

Erla lítur á skömmustulega feðgana, „þú hefur ekkert breyst Kári,“ segir hún og brosir.

„Fyrirgefðu, snjóboltinn átti alls ekki að fara í þig,“ segir Leó og lítur á skóna sína.

„Iss, það er enginn skaði skeður,“ segir Erla og hendir seinasta ruslapokanum.

„Ég var að segja stráknum mínum frá snjóstríðinu okkar Ásgerðar og Ösku,“ segir Kári.

„Aska var frábær hundur, ég er einmitt að leita mér að öðrum hundi sem gæti veitt mér félagsskap nú þegar ég er hætt að vinna og krakkarnir alltaf uppteknir,“ segir Erla og fer aftur inn til sín.

Feðgarnir klára að moka innkeyrsluna og fara svo kaldir inn. Leó flýtir sér upp til að fara í hlýja sokka og grípur þá Kötlu glóðvolga að lita í töfrateikniblokkina.

Katla hrekkur við og lokar óvart töfrateikniblokkinni, kunnuleg bjölluhljóð heyrast og í herberginu birtist lifandi hundur sem líkist Mola. Katla knúsar hundinn en Leó er ekki ánægður.

„Við getum ekki haldið honum, við megum ekki fá annan hund strax,“ segir Leó.

„Við getum ekki losað okkur við Mola,“ segir Katla og tárast.

„Þó þessi hundur sé líkur honum þá er þetta ekki Moli. Moli okkar er dáinn,“ segir Leó og það er satt hjá honum.

Katla sér eftir gjörðum sínum en einhvernveginn verða þau að losa sig við hundinn áður en pabbar þeirra komast að leyndarmáli töfrateikniblokkarinnar. Leó fær frábæra hugmynd, þau lauma hundinum út og gefa Erlu gömlu hundinn.

9. kafli 

Leó kveikir á öðru aðventukertinu, Betlehemskertinu, áður en systkinin fá leyfi til að heimsækja Súsí. Þau vilja vita meira um uppruna töfrateikniblokkarinnar. Stofan hennar Súsíar er full af spennandi hlutum og minjagripum frá ferðalögum Súsíar og Gvends um heiminn. Leó dregur teikniblokkina upp úr litlum bakpoka og lítur á Súsí

„Geturðu sagt okkur eitthvað meira um þessa teikniblokk?“

„Grunaði ekki Gvend,“ segir Súsí og lítur á vegginn þar sem mynd af Gvendi heitnum hangir. Krakkarnir líta bæði á myndina og svo aftur á Súsí. Hún tekur til máls, „Gvendur lá yfir þessari teikniblokk í mörg ár eftir að hann fann hana. Hann sat kvöld eftir kvöld með nefið í myndunum, grandskoðaði hvert einasta smáatriði. Einn daginn kom hann til mín og sagðist loksins hafa fundið lausnina. Hann sýndi mér eldgamla bók um leyndardóma jólanna, þá bók lagði hann ekki frá sér fyrr en hann kunni hana utanbókar.“

„Hvar er sú bók núna? Áttu hana ennþá?“ spyr Katla.

„Jú, hún ætti að vera hérna einhversstaðar,“ segir Súsí og stendur upp til að leita að bókinni.

Eftir langa leit leggur hún stóra bók á stofuborðið. Titillinn Leyndardómar jólanna er grafinn í kápuna og fyrir neðan titilinn er stór rauður kristall sem virðist glóa. Blaðsíðurnar eru gulnaðar og Katla nær varla að skilja fallegt letrið en það eru myndir af jólasveinum í allskonar fötum. Einnig eru myndir af Grýlu, Leppalúða og jólakettinum. Einn jólasveinninn situr við borð umkringdur leikföngum, hann er að teikna í litla teikniblokk.

„VÁ! Leó sjáðu! Þú átt teikniblokk eins og jólasveinarnir eiga!“ segir Katla spennt og bendir á myndina í bókinni. Leó heldur áfram að fletta og finnur kafla sem nefnist Jólaandakristallinn, og þar stendur:

Trú mannfólksins á jólasveinana er mæld með jólaandakristöllum, einn slíkur kristall er framan á þessari bók. Trú mannfólksins er forsenda þess að töfrar jólanna lifi og tröllin í Grýluhelli geti sinnt sínu starfi. Ef mannfólkið hættir að trúa og töfrarnir hverfa mun sólin aftur verða eitruð tröllum og allir jólasveinarnir gætu orðið að steini.
Það er því afar mikilvægt að fylgjast vel með litnum á kristalnum og rækta trúna ef tilefni er til. Á næstu síðu sést hvað hinir ýmsu litir kristallana merkja.

Leó flettir en er þá kominn á kafla um matarvenjur jólakattarins.

„Súsí, það vantar blaðsíðu, veistu hvar hún gæti verið?“ spyr Leó.

„Blaðsíðan er á safni í Flórens á Ítalíu,“ segir Súsí og sýnir þeim innrammaða fréttagrein.

Systkinin stara forviða á hana svo Súsí útskýrir nánar.

„Sjáiði til, árið 1972 tók Gvendur minn þátt í skutlukeppni á Ítalíu. Hann var kominn í úrslitin þegar óheiðarlegur keppinautur hans hellti vatni yfir seinasta blað Gvends. Hann dó þó ekki ráðalaus heldur dró bók upp úr töskunni sinni, reif út eina blaðsíðu og braut saman sigurskutlu keppninnar. Safnið vildi undireins fá þennan kostagrip í hendurnar og síðan þá hefur skutlan verið til sýnis í Flórens.“

„Æj nei, hvað gerum við þá?“ spyr Katla örvæntingarfull.

„Kannski er til önnur svona bók einhversstaðar? Er bókasafnið opið?“ spyr Leó.

„Við getum flett bókinni upp á netinu,“ segir Súsí og hleypur fram.

Þegar krakkarnir finna Súsí er hún búin að setja upp gleraugu og situr við tölvuna. Leó sækir stóla fyrir sig og Kötlu og þau setjast hjá Súsí. Hún flettir upp leitir.is og skrifar heiti bókarinnar í leitarvélina. Súsí les úr upplýsingunum sem birtast. „Látum okkur sjá, hér stendur að bókin sé til á tveimur bókasöfnum á landinu. Það eru tvö eintök á Akureyri.“

„Það er allt of langt í burtu,“ segir Katla en Súsí heldur áfram, „…og eitt eintak í… svei mér þá, heppnin er með ykkur,“ segir hún glöð.

„Hvar er hún?“ spyr Leó spenntur.

„Það er eitt eintak í skólanum ykkar,“ segir Súsí.

Systkinin stökkva upp af gleði. Þau gefa hvort öðru fimmu og Súsí fær einnig sitthvora fimmuna. Súsí snýr sér að Kötlu, „Katla mín, manstu þegar ég sagði þér að þú fengir gjöf seinna?“

Katla kinkar kolli. Súsí réttir fram bókina um leyndardóma jólanna. „Hér er hún núna, þú mátt eiga þessa bók,“ segir hún.

„Takk, Súsí, þú ert best!“ segir Katla og knúsar frænku sína innilega.

10. kafli 

Katla verður glöð þegar kennarinn tilkynnir  að þau ætli á bókasafnið og að þar megi allir velja sér skemmtilega bók að lesa. Katla leitar hátt og lágt í hillunum að bókinni Leyndardómar jólanna en hvergi er bókin sjáanleg. Að lokum fer Katla til konunnar sem vinnur á bókasafninu. Hún situr við skrifborð og er að vinna í tölvu.

„Hæ, hvar er bókin Leyndardómar jólanna?“ spyr Katla

„Hún er ekki lengur í útláni,“ svarar konan án þess að líta af skjánum.

„Ha, af hverju ekki? Það er mjög mikilvægt að ég fái að lesa hana,“ segir Katla.

Konan snýr sér að Kötlu. „Bókin er ekki í útláni því G… einhver krotaði í hana. Nú fær hana enginn fyrr en ég treysti ykkur krökkunum aftur fyrir dýrmætu bókunum mínum.“

Fyrir aftan konuna er stór skápur með glerhurðum, í gegnum glerið sér Katla bókina. Þetta eintak er ekki með jólaandakristal framan á kápunni en annars virðist það nokkuð heillegt. Katla reynir einu sinni enn að biðja fallega um bókina en konan haggast ekki. Katla neyðist til að finna aðra bók fyrir íslensku og fer grautfúl aftur upp í stofu með bekknum sínum.

Katla finnur Leó og segir honum slæmu fréttirnar.

„Læst inni í skáp?“ Leó lítur undrandi á Kötlu. „Hver krotaði í hana?“

„Mig grunar hver,“ segir Katla og horfir fyrir aftan Leó. Þar er Gabríel búinn að taka jólasveinahúfu af einhverjum krakka og sveiflar henni hátt utan seilingar eigandans.

„Hvað gerum við þá?“ spyr Leó.

„Við getum ekkert gert,“ segir Katla „við verðum bara að vona að jólin séu ekki í hættu. Rauður er örugglega góður litur, er það ekki?“

„Ætli það ekki,“ segir Leó.

Á hverju ári er haldin jólaskemmtun síðasta daginn fyrir jólafrí, þar sem kórinn syngur og krakkar eru með skemmtiatriði. Í ár á bekkurinn hennar Kötlu að sýna leikrit um jólasveinana en ekki eru allir jafn spenntir og Katla fyrir því. Margir gera grín að Kötlu því hún er ein af fáum sem trúir á jólasveinana. Hún grætur og hleypur fram. Þetta er ekki góður dagur. Hún finnur sér skot undir stiga, felur sig þar og grætur. Allt í einu heyrist rödd spyrja: „Er allt í lagi?“

Katla lítur upp og sér Gabríel krjúpa rétt hjá sér.

„Ekki þú, farðu,“ svarar Katla og snýr sér frá Gabríel.

„Ertu meidd, viltu að ég nái í kennara?“ spyr hann.

„Nei, ég vil bara vera ein,“ segir Katla og sýgur upp í nefið.

„Allt í lagi,“ segir Gabríel og stendur upp.

„Af hverju má ekki trúa á jólasveinana lengur?“ missir Katla út úr sér.

„Ha?“ segir Gabríel og krýpur aftur hjá Kötlu.

Hún snýr sér við og lítur grátbólgnum augum á hann. „Ég sagði: Af hverju má ég ekki trúa á jólasveinana lengur? Enginn í bekknum mínum trúir lengur á jólasveinana og ef ég segist trúa er mér strítt eða ég kölluð smábarn.“

Gabríel horfir skömmustulegur á hana og muldrar, „fyrirgefðu að ég kallaði þig smábarn.“

Nú getur Katla ekki hætt og heldur áfram: „Af hverju þarftu alltaf að vera vondur og skemma? Þú ert alltaf að eyðileggja fyrir öðrum, jólin gætu verið í hættu og þökk sé þér getum við ekki fundið leið til að bjarga þeim.“

„Af því að ég kallaði þig smábarn?“ spyr Gabríel ringlaður.

„NEI!“ æpir Katla. „Af því þú krotaðir í bókina um leyndardóma jólanna!“

„Ó,“ segir Gabríel og veit ekkert hvað hann á að segja.

„Af hverju, af hverju ertu svona mikið á móti jólunum?“ spyr hún.

Gabríel sest niður við hliðina á Kötlu og eftir smá þögn segir hann: „Vegna þess að foreldrar mínir rífast alltaf mest á jólunum.“

Tár byrja að leka úr augum Gabríels. Hann reynir að þerra tárin en Katla klappar honum á bakið.

„Mér þykir leitt að heyra það, en það þýðir samt ekki að þú megir vera vondur,“ segir hún.

„Ég veit,“ segir Gabríel og þau sitja þegjandi saman þangað til hann segir: „Ég er líka smábarn. Ég trúi á jólasveinana.“

Katla brosir undrandi til hans. „Þú ert ekki smábarn þótt þú trúir á jólasveinana. Pabbar mínir trúa á þá og þeir eru rosa gamlir.“

Gabríel flissar og það gerir Katla líka. Svo verður Gabríel hugsi á svip og spyr Kötlu: „Af hverju sagðirðu að jólin væru í hættu?“

Katla segir honum frá jólaandakristalnum, bókinni um leyndardóma jólanna og skutlunni í Flórens.

„Mig langar að hjálpa ykkur. Ég veit hvernig við getum náð bókinni,“ segir Gabríel og þá hringir seinasta bjalla skóladagsins.

11. kafli 

Stekkjastaur opnar augun og teygir úr sér, hann rekur óvart hnefann upp í gapandi munn Bjúgnakrækis sem kippist við og gefur Askasleiki olnbogaskot í magann. Askasleikir æpir af sársauka og þar með eru allir jólasveinarnir vaknaðir. Svona vakna þeir furðu oft, bræðurnir. Það gerist vegna þess að þeir kúra allir saman í einu bæli sem þeir eru löngu vaxnir upp úr. Grýla hefur margoft reynt að fá þá til að sofa eina í sínum herbergjum en þeim finnst lang best að sofna saman í þessu gamla og slitna bæli.

Bræðurnir fara í föt og tínast fram í eldhús. Síðust á fætur er svo Grýla. Grýla verður alltaf hálf döpur á þessum tíma árs því henni finnst erfitt að kveðja strákana sína en það sem hún veit ekki er að bræðurnir ætla að koma henni á óvart áður en Stekkjastaur fer.

„Hérna, mamma, þettta er til þín frá okkur bræðrunum,“ segir Giljagaur og réttir mömmu sinni lítinn ferkantaðan pakka.

„Þetta er aldeilis óvænt, jólin eru ekki fyrr en eftir tvær vikur,“ segir Grýla og hristir pakkann harkalega til þess að komast að innihaldinu.

„Mamma, passaðu þig, þetta er brothætt,“ segir Stúfur órólegur.

„Brothætt segirðu, hvað getur þetta verið?“ muldrar Grýla og fer að rífa gjafapappírinn varlega af pakkanum. Lítill kassi dettur í kjöltuna á Grýlu og ofan í honum er splúnkunýr snjallsími. Grýla tekur upp símann með tveim loðnum fingrum og starir gáttuð á tækið

 „Og hvaða undarlega apparat er þetta?“ spyr hún.

„Þetta er sími svo þú getir hringt í okkur meðan við erum í bæjarhelli,“ segir Stekkjastaur.

Grýla rekur upp skellihlátur. „Sími?! Hvað eruð þið búnir að gera núna? Sérðu þetta Lúði þeir kalla þetta síma!“ Hún rekur símann óvart í Leppalúða svo hann dettur í gólfið, allir bræðurnir taka andköf, Stúfur hleypur að símanum og sér að sem betur fer er hann ennþá heill.

„Ég ætla að teikna fyrir þig gott hulstur áður en þú skemmir símann en ég skal kenna ykkur á þetta … apparat seinna í dag. Nú þurfum við að kveðja Stekkjastaur.“

„Já, alveg rétt ég þarf að drífa mig ef ég á að heimsækja jólaball áður en ég dreifi gjöfunum,“ segir Stekkjastaur.

 

Í skólanum hefur tríóið Katla, Leó og Gabríel gert áætlun til að stela Leyndardómum jólanna eða eins og Katla kallar áætlunina: „Fá hana lánaða í leyfisleysi.“

Katla ætlar að plata konuna á bókasafninu burt svo Leó og Gabríel geti fundið lyklana að skápnum og náð bókinni. Leó á að standa vörð á meðan Gabríel leitar að lyklunum. Gabríel leitar og leitar en finnur ekki lyklana. Leó treystir honum ekki og gleymir þá sínu hlutverki. Allt í einu kemur bókasafnskonan til baka og strákarnir stökkva á bak við skrifborðið hennar.

Í óðagotinu rekst Leó í skrifborðsstólinn og hringl í lyklum heyrist úr vasa úlpu sem hangir á stólnum. Gabríel fórnar sér fyrir teymið og lætur viljandi góma sig svo Leó geti náð bókinni.

Á síðunni um liti jólaandakristalsins stendur:

Grænn: Best er að hafa jólaandakristalinn grænan, það merkir að margir trúi á sanna jólatöfra og mikill kærleikur ríki í samfélaginu
Gulur: Það þarf ekki að hafa miklar áhyggjur af gulum jólaandakristal. Trú mannfólksins er ennþá sterk en gulur kristall gæti gefið til kynna að mannfólkið þurfi áminningu um mikilvægi kærleika.
Rauður: Ef jólaandakristallinn er rauður þá eru jólin í stórhættu. Margir hafa misst trúna á töfra jólanna og mannfólkið gleymir að sýna hvert öðru kærleika.
Svartur: Ef jólaandakristallinn missir ljósið varanlega og verður kolsvartur er öll von úti og aðeins öflugt kraftaverk getur bjargað jólunum núna.

„Ó nei! Jólin eru í stórhættu og jólasveinarnir hafa ekki hugmynd um að þeir gætu orðið að steini í næsta sólarljósi!“ hrópar Katla í mikilli örvæntingu. „Við verðum að láta þá vita Leó, við verðum!“

Um kvöldið setja krakkarnir skóna sína út í gluggann hans Leós, Katla dregur dýnuna sína yfir í herbergið hans og býr um sig á gólfinu. Þau ætla að vaka eftir Stekkjastaur til að segja honum fréttirnar en eftir langa bið í myrkrinu fer þreytan að segja til sín og systkinin byrja að dotta.

12. kafli 

Katla nuddar stýrurnar úr augunum og lítur út um gluggann, í gluggasyllunni eru tveir skór og það er komið eitthvað í þá báða. Katla stekkur upp og hleypur að glugganum „Leó! Leó! Sjáðu hvað Stekkjastaur gaf okkur hann ga…. ó, nei! Leó við sofnuðum, Stekkjastaur veit ekki ennþá að hann er í hættu.“

Leó hrýtur.

„Leó, vaknaðu,“ segir Katla og ýtir við bróður sínum. Frammi á gangi heyrir hún í pabba sínum. „Góðan daginn Katla, hvernig svafstu? Katla? Hvar ertu?“ Grímur kemur inn til Leós „Leó veistu um Kötlu? Hún…,“ hann kemur auga á Kötlu. „Þarna ertu. Svafstu hér í nótt?“

„Já, við vorum … bara … svo spennt að fá Stekkjastaur í heimsókn,“ segir Katla og brosir til pabba síns.

„Hvað gaf hann ykkur í skóinn?“ spyr Grímur.

„Mandarínu!“ gólar Katla og sýnir honum girnilega mandarínu.

Leó hrekkur upp „Huh?“ hann er mjög áttaviltur.

„Góðan daginn Leó, það er kominn dagur,“ segir Grímur „og glaðningur frá Stekkjastaur bíður þín í skónum,“ bætir hann við og bendir á gluggann.

„Sofnuðum við?“ spyr Leó en Katla reynir að sussa á hann með svipbrigðum.

„Ég ætla rétt að vona það, því annars kemur jólasveinninn ekki,“ segir Grímur. „Farið í föt og komið svo niður að borða,“ segir hann og fer niður.

„Heyrðirðu þetta? Ef við erum vakandi þá kemur enginn jólasveinn,“ segir Katla áhyggjufull. „Við verðum að finna aðra leið til að vara þá við,“ segir hún og dregur dýnuna sína inn í herbergið sitt.

Skóladagurinn er lengi að líða því Katla vill helst vera heima að skipuleggja komu Giljagaurs. Eftir skóla fer hún á kóræfingu ásamt Margréti og Tindi. Þau eru löngu byrjuð að æfa jólalögin fyrir jólaskemmtunina. Kórstjórinn gefur þeim merki og þau byrja að syngja:

„Ég sá mömmu kyssa jólasvein,
við jólatréð í stofunni í gær…“

Þegar Katla æfir þetta lag heima syngur hún alltaf:

„Ég sá pabba kyssa jólasvein,
við jólatréð í stofunni í gær…“

Einu sinni söng hún það óvart á kóræfingu en kórstjóranum fannst það svo skemmtilegt að hún bætt við einu erindi svo nú enda þau lagið á:

„…já sá hefði hlegið með,
hann pabbi minn hefð’ann séð,
pabba kyssa jólasvein í gær.“

Katla kveður Tind og Margréti eftir æfingu og flýtir sér heim, hún og Leó þurfa að gera áætlun fyrir kvöldið. Systkinin passa að segja ekkert við kvöldverðarborðið en halda síðan leynifund uppi í herberginu hans Leós. Þau ákveða að skrifa bréf:

Kæri Giljagaur
Við erum með slæmar fréttir fyrir þig og fjölskylduna þína. Jólaandakristallinn er rauður, sem þýðir að fólk er hætt að trúa á töfra jólanna og farið að gleyma kærleikanum. Ef fólk fer ekki að trúa fljótlega þá verður sólin aftur eitruð tröllum og þið gætuð orðið að steini.
Við viljum hjálpa ykkur svo okkur datt eitt bráðsniðugt í hug. Við skiljum eftir síma svo þú getir tekið sjálfu sem við munum svo sýna krökkum til að sanna fyrir þeim að þið bræður séu raunverulega til.
Kær kveðja,
Leó og Katla

13. kafli 

Kæru Leó og Katla
takk fyrir bréfið. Ef jólaandakristallinn er orðinn rauður eins og þið segið, þá er lítið sem þið og við getum gert. Ég er ekki klár á svona tækni apparöt en ég held ég hafi tekið eina sjálfu, þó er ég hræddur um að það verði ekki nóg. Eina von okkar núna er að töfrar jólanna sendi okkur kraftaverk.
Þið trúið á okkur bræðurna og svo lengi sem þið trúið þá erum við fjölskyldan örugg gegn sólinni. Ég hef ekki áhyggjur því ég trúi á ykkur.
Gleðileg jól.
Frá Giljagaur

 

Leó les bréfið upphátt fyrir Kötlu og sýnir henni svo símann sinn.

„Sjálfan heppnaðist ekkert rosalega vel,“ segir hann.

Á skjánum sést loðinn skuggi og smá hluti af rauðum búningi sem vettlinguðum putta Giljagaurs tókst ekki að hylja.

„Æ, þar fór í verra,“ segir Katla „nú höfum við ekkert til að sýna hinum krökkunum.“

„Við finnum aðra leið í kvöld en viltu ekki sjá hvað við fengum í skóinn?“ spyr Leó og bendir á skóna í glugganum.

„Jú, heldur betur,“ segir Katla og stekkur að skónum. Katla fékk rauðan spilastokk og Leó fékk teningaspilið Yatzy.

Í dag er óhefðbundinn dagur hjá Kötlu í skólanum því bekkurinn hennar byrjar að undirbúa jólasveinaleikritið. Þau hafa öll fengið hlutverk sem þau eru sátt við. Katla leikur Askasleiki en Margrét, Tindur og Anna, bekkjarsystir þeirra, hafa skipt með sér erindunum í ljóði Jóhannesar úr Kötlum um jólasveinana. Krakkarnir sem leika jólasveina munu fá rauða jólasveinajakka og jólasveinahúfur sem textílmenntakennarinn saumaði fyrir nokkrum árum en þau þurfa sjálf að búa til skegg og leikmuni. Kennarinn kemur með búningakassa fyrir þau tvö sem leika Grýlu og Leppalúða og upplesarana því leikritið á að gerast í gamla daga, áður en jólasveinarnir fóru að gefa gjafir í skó. Katla föndrar skegg úr pappír. Hún gerir skeggið sérstaklega langt og úfið því í ljóðinu segir: „Hann fram undan rúmunum, rak sinn ljóta haus.“ Katla skilur það sem svo að hann hafi verið með illa greitt skegg. Því næst finnur hún brúnt blað og býr til askinn hans Askasleikis.

Leikmyndin er langt frá því að verða tilbúin svo allir sem hafa klárað skeggin sín og leikmuni hjálpa þeim sem eru að vinna í leikmyndinni. Það þarf að búa til eldhús, fjós og fjall en einnig nokkrar kindur og kú. Katla finnur pappakassa og hvíta málningu, hún teiknar kind á kassann með blýanti og sker svo út lappir og notar afgangana til að búa til haus. Hausinn festir hún með því að skera rauf á efri hluta kassans og troða honum þar ofan í. Hún notar smá límband til að tryggja hausinn, síðan málar hún kindina hvíta og teiknar á hana andlit.

Í frímínútum gerir Katla snjókarl ásamt Margréti og alveg óvænt kemur Gabríel til þeirra og vill vera með. Þau þrjú búa til stærsta og flottasta snjókarl sem hefur nokkurn tímann staðið á þessari skólalóð.

Um kvöldið finnur Leó gamla upptökuvél sem mun vonandi fanga Stúf á myndband, sú áætlun getur ekki farið úrskeiðis, eða hvað?

14. kafli 

Leó vaknar strax við vekjaraklukkuna sína, hann sest upp og lítur út í glugga. Þar sitja tveir litlir bangsar í sitthvorum skónum og brosa til hans. Leó teygir sig í upptökuvélina sem liggur ofan á háum bókastafla á náttborðinu hans. Minnið á upptökuvélinni fylltist um nóttina, upptakan stöðvaðist um leið og húfan hans Stúfs birtist í glugganum. Það er tæplega nóg til að sannfæra krakkana í skólanum. Og svo til að bæta gráu ofan á svart verður upptökuvélin rafmagnslaus og ekkert hleðslutæki til í húsinu.

 

Stúfur kemur dauðþreyttur inn í Bæjarhelli þar sem hann hittir bræður sína tvo. Stekkjastaur er að sjóða hafragraut yfir litlu eldstæði og Giljagaur er búinn að hengja upp ullarnærfötin sín á snúru. Bæjarhellir hefur útsýni yfir allt höfuðborgarsvæðið og Stúfi finnst fátt fallegra en haf af jólaljósum á dimmum desembermorgni.

„Giljagaur var að segja mér slæmar fréttir, jólaandakristallinn er rauður,“ segir Stekkjastaur og setur hafragraut í þrjár skálar.

„Ha? Hvernig veistu?“ spyr Stúfur og fær sér sæti við eldstæðið.

„Katla og Leó skrifuðu bréf, þau eru með einu bókina þar sem jólaandakristalnum hefur ekki verið stolið,“ segir Giljagaur og sest hjá þeim.

„Ja hérna, veit mamma það?“ spyr Stúfur og stingur fullri skeið af hafragraut upp í sig.

„Ekki ennþá,“ segir Stekkjastaur og þeir borða grautinn í þögn. Allt í einu heyrist jólalag upp úr skjóðu Stúfs. Giljagaur horfir áhyggjufullur á skjóðuna.

„Gleymdirðu að gefa eina gjöfina? Það er grafalvarlegt ef jólaandakristallin er rauður þá gæti barnið misst trúna og …“

„Slakaðu á,“ segir Stúfur og dregur síma upp úr skjóðunni „þetta er bara mamma að hringja.“

Bræðurnir þrír hópast saman við símann og Stúfur ýtir á græna takkann. Á skjánum birtist eyra Grýlu í miklum skugga.

„Hæ mamma,“ segir Stekkjastaur.

„Hæ Giljagaur,“ segir Grýla.

Giljagaur segir sármóðgaður: „Nei ég er Giljagaur þetta var Stekkjastaur.“

„Lúði, af hverju er þetta svona hátt?“ spyr Grýla Leppalúða.

Stúfur ranghvolfir augunum. „Mamma, ég var búinn að segja þér að þetta er myndsímtal, þá þarftu ekki að setja síman upp við eyrað.“

Grýla færir síman örlítið frá eyranu og nú sést eyrnamergur Grýlu í smáatriðum, bræðurnir hörfa frá símanum.

„Ég held að þú þurfir að skafa úr eyrunum, oj bara,“ segir Giljagaur.

Stúfur og Stekkjastaur gefa Giljagaur olnbogaskot.

„Ái,“ kallar Giljagaur.

„Hvað sagði hann?“ spyr Leppalúði úr fjarlægð.

„Ekki neitt,“ segja Stúfur og Stekkjastaur samtímis.

„Mamma, taktu síman frá eyranu og horfðu á skjáinn,“ segir Stúfur og loksins færir Grýla símann frá eyranu. Núna sjá bræðurnir upp í nasirnar á báðum foreldrum sínum.

„Nei, þarna eruð þið allir þrír. Litlu strákarnir mínir,“ segir Grýla. „Stúfur, ég gleymdi að spyrja þig í gær, ertu ekki örugglega með nóg af nærbuxum?“

„Æji mamma,“ segir Stúfur pirraður og bræður hans flissa. Allt í einu heyrast drunur og allt hristist í Grýlu helli.

„Bölvaðir jarðskjálftar, geta þeir ekki haldið í sér fram yfir jól?“ gargar Grýla.

„Mamma er allt í lagi?“ spyr Stúfur.

„Funduð þið ekki skjálftann?“ spyr Grýla.

Bræðurnir hrista hausinn en einmitt þá kemur dynkur og Bæjarhellir hristist lítillega. Giljagaur tekur upp pela af mjólk sem var næstum því oltinn um koll. „Mig langaði einmitt í mjólkurhristing í dag,“ segir hann og fær sér sopa.

Útidyrnar opnast í Grýluhelli og fyrir aftan foreldra sína sjá bræðurnir Hurðaskelli koma inn með brotinn sleða í höndinni.

„Þetta var sko skellur í lagi! Jarðskjálftinn sendi mig í allt aðra átt en ég ætlaði svo ég klessti á einhverja málmsúlu, ég held að ég sé með kúlu… Vá! Þetta rímaði, súlu, kúlu, súlu, kúlu…,“ Hurðaskellir sönglar áfram, „súlu, kúlu…,“ og fer að skoða kerti.

„Ég þarf að fara að sinna bróður ykkar, hann er eitthvað kexruglaður,“ segir Grýla og leggur símann frá sér í sætið.

„Mamma, þú gleymdir að skella á! Manstu, ýta á rauða takkann!“ kallar Stúfur en Grýla svarar ekki. Allt í einu kemur rassinn á Hurðaskelli í mynd og bræðurnir garga allir í kór.

„Nei, nei, nei, oj!“ um leið og Hurðaskellir sest á símann.

Stúfur skellir á og bræðurnir standa þöglir saman inni í Bæjarhelli.

15. kafli 

Katla vaknar við að Leó bankar á dyrnar hennar, Katla opnar augun og sér Leó koma inn.

„Hæ, viltu koma og sjá hvað Þvörusleikir gaf okkur í skóinn?“ spyr hann.

„Mhm,“ svarar Katla og ýtir sænginni af sér. Hún sest upp og pírir augun þegar Leó kveikir ljósið. Katla trítlar á náttfötunum á eftir Leó alla leið að glugganum. Í skónum hennar Kötlu er rauður pez-karl með ofur krúttlegan hvolpahaus.

„Vá, hvað hann er sætur!“ segir Katla og tekur upp pez-karlinn.

„Ég fékk þennan,“ segir Leó og sýnir henni bleikan pez-karl með fuglahaus.

„Mig langar að sýna pabba mínum,“ segir Katla og hleypur niður með Leó á hælunum.

„Sjáiði hvað Þvörusleikir gaf okkur,“ segir Katla þegar systkinin koma hlaupandi inn í eldhús. Grímur situr við eldhúsborðið og flettir blaðinu með kaffibolla í hendinni. Kári er að smyrja samloku. Krakkarnir leggja pez-karlana sína á borðið.

„Minn er svo sætur að ég gæti étið hann,“ segir Katla.

„Má ég þá eiga pezið þitt?“ segir Leó í gríni.

„Nei ertu frá þér?“ segir Katla og er fljót að hrifsa aftur til sín pez-karlinn.

Leó sér Kára setja samlokuna í nestisbox. „Pabbi, fyrir hvað er nestið?“

„Ég þarf að fara í vinnuna,“ segir Kári.

„Á laugardegi?“ spyr Katla.

„Já, því miður, jarðskjálftamælirinn sem mældi skjálftann í gær virðist vera óvirkur og það er bráðnauðsynlegt að koma honum aftur í gang svo við getum mælt virknina á jöklinum,“ segir Kári og setur nestisboxið ofan í bakpoka.

„En hver fer þá með okkur í leikhúsið að sjá pabba?“ spyr Katla.

„Súsí ætlar að passa ykkur í dag þar sem ég verð að sýna tvær sýningar. Hún kemur eftir hálftíma og þið farið með henni á fyrri sýninguna,“ segir Grímur.

Súsí og systkinin fara með strætó í leikhúsið. Í þetta sinn er það fjölskyldusýning sem pabbi þeirra er að leika í. Grímur leikur kóng sem saknar sonar síns en prinsinn er fangi uppi í turni sem dreki stendur vörð um. Iðunn, ung bóndadóttir, er staðráðin í að bjarga prinsinum og verða hetja. Hún leggur af stað í björgunarleiðangur ásamt vini sínum Styrmi og eftir margar hindranir tekst þeim að bjarga prinsinum og skila honum heim.

Katla klappar, brosir og hrópar meðan leikararnir hneigja sig. Hún er mjög stolt af pabba sínum, hann stóð sig mjög vel og sýningin var ein sú skemmtilegasta sem Katla hefur á ævinni séð.

Grímur hefur smá tíma áður en hann þarf að undirbúa sig fyrir næstu sýningu svo hann býður Súsí og systkinunum baksviðs til að drekka heitt kakó og spjalla um sýninguna.

Síðan fylgir Súsí krökkunum heim og eldar með þeim kvöldmat, Grímur kemur heim úr leikhúsinu í tæka tíð til að borða með þeim en Kári er ennþá í vinnunni.

Katla er komin upp í rúm að lesa Emil í Kattholti þegar Kári loksins bankar á herbergishurðina.

„Hæ, ertu nokkuð sofnuð?“ spyr hann.

„Nei, ég var bara að lesa, náðuð þið að laga jarðskjálftamælinn?“ spyr Katla.

„Nei, því miður og þess vegna þarf ég að fara í smá ferðalag á morgun,“ segir Kári.

„Verðurðu kominn heim fyrir jól?“ spyr Katla áhyggjufull.

„Já, að sjálfsögðu, ég fer snemma í fyrramálið og verð svo kominn aftur til að kyssa þig góða nótt,“ segir Kári.

„Lofarðu?“ spyr Katla.

„Já, ég lofa,“ segir Kári, „farðu nú að sofa litli bókaormur.“ Hann kyssir hana á ennið. Katla leggur bókina á náttborðið og leggst undir sængina. Kári slekkur ljósin og fer að pakka útifötum í bakpoka.

16. kafli 

Kári og samstarfsfélagar hans eru komin að rótum Mýrdalsjökuls þegar Katla og Leó finna sitthvort vettlingaparið frá Pottaskefli í skónum sínum. Grímur er að kveikja á þriðja aðventukertinu, Hirðakertinu, þegar krakkarnir koma niður. Þau leggja á borð og borða saman egg og beikon áður en þau klæða sig í útiföt til að heimsækja Súsí.

Kári og félagar ferðast upp jökulinn á vélsleðum, hópurinn nálgast bilaða jarðskjálftamælinn óðfluga. Þau stöðva sleðana og skoða aðstæður. Þau taka eftir stórri dæld, sjá að hreyfill er grafinn í snjóinn og sólarsellan er brotin.

„Hvað gæti hafa valdið þessari dæld?“ spyr Kári þegar hann skoðar mælinn.

„Stundum brotna stórir klakar og klakamolar rúlla niður brekkurnar hérna,“ segir Axel, yfirmaður hans.

Sannleikurinn er reyndar sá að Hurðaskellir missti stjórn á sleðanum sínum í stóra skjálftanum og klessti óvart á jarðskjálftamælinn.

Þegar mælirinn er kominn í stand hlaða þau öllum verkfærum aftur á sleðana og leggja af stað til baka. Kári og Catarina, vinkona hans, reka lestina. Þau gleyma sér aðeins í spjalli og taka ekki eftir hve hratt ferðafélagar þeirra fara.

„Mér sýnist við hafa dregist full mikið aftur úr, við ættum kannski að gefa í,“ segir Kári loksins.

„Förum þá í kapp,“ segir Catarina, „sá síðasti er slabb!“ kallar hún um leið og hún þýtur fram úr Kára. Kári gefur í en í stað þess að fara hraðar fer vélsleðinn að hökta.

„Catarina bíddu, ég held að sleðinn minn sé bilaður,“ kallar hann en þá kemur kröftugur jarðskjálfti. Jörðin virðist hrynja undan Kára þegar snjóflóð dregur Kára og vélsleðann niður langa brekku. Catarina fylgist skelfingu lostin með vini sínum hverfa í snjóinn.

Heima hjá Súsí fær Grímur símtal frá Catarinu.

„Hæ er þetta Grímur?“ spyr hún.

„Já, það er hann. Er ekki allt í lagi?“ spyr Grímur.

„Kári lenti í snjóflóði og hvarf. Við erum búin að hringja á hjálp og björgunarsveitin er komin í málið en það er farið að hvessa og von á óveðri í nótt svo þau geta ekki sent þyrlu. Þau segja að það sé mjög erfitt að komast að honum þar sem hann gæti verið en við verðum bara að halda í vonina. Kári er vel útbúinn svo ef hann er ekki slasaður ætti hann að vera í lagi.“

Grímur er orðlaus, hann tárast og réttir Súsí símann áður en hann bregður sér fram til að gráta. Catarina endurtekur söguna og Súsí þakkar henni fyrir að hringja. Svo sest Súsí hjá systkinunum og segir þeim hvað gerðist.

Grímur er staddur einn inni í eldhúsi þegar síminn hans hringir og á skjánum birtist númer Kára. Grímur svarar samstundis símanum sínum.

„Hæ, hvar ertu?“

Röddin hans Kára er óskýr því hljóðneminn skaddaðist í snjóflóðinu.

„Hæ, ástin mín, það er lítil hleðsla eftir á símanum. Ég er í lagi nema ég hlýt að hafa snúið upp á ökklann, ég finn til ef ég stíg í fótinn. Ég veit ekkert hvar ég er samt.“

„Björgunarsveitin er á leiðinni, reyndu að vera sýnilegur en passaðu þig að verða ekki of kalt,“ segir Grímur hratt.

„Ég er vel klæddur og með nægar vistir. Ekki hafa áhyggjur af mér. Ég elska…“ sambandið rofnar þegar sími Kára deyr.

„Ég elska þig líka,“ hvíslar Grímur og snýr sér við með tárin í augunum.

Þá sér hann krakkana sína standa í gættinni, hann þerrar tárin og brosir til þeirra.

„Hann er á lífi, þetta verður allt í lagi,“ segir hann.

17. kafli 

„Veðrið á jöklinum versnaði í gærkvöldi, mikill skafrenningur og lítið skyggni. Við sendum leitarsveitir sem gerðu sitt besta en vegna veðurs komust þær ekki langt inn á leitarsvæðið,“ segir Jónas, einn verkefnastjóra björgunarsveitarinnar, við Grím í síma.

„Hvað þýðir það? Eruð þið búin að gefast upp?“ spyr Grímur. Hann kom ekki dúr á auga í nótt fyrir áhyggjum af Kára.

„Nei, alls ekki. Veðrið mun lægja upp úr 10 og þá sendum við átta leitarsveitir af stað, við gerum okkar besta til að finna hann í dag áður en appelsínugul veðurviðvörun tekur gildi í nótt,“ segir Jónas.

„Takk,“ segir Grímur og skellir á.

Hann fer upp að vekja krakkana. Þau eru vitaskuld áhyggjufull en Grímur telur best að senda þau í skólann svo þau hugsi um eitthvað annað en pabba sinn uppi á fjalli. Askasleikir gaf Kötlu húfu en Leó fékk ullarsokka. Systkinin klæða sig í nýju spjarirnar og eru samferða í skólann.

Kára tókst að tjalda litlu tjaldi í gærkvöldi eftir símtalið við Grím, hann er með góðan svefnpoka og svaf því ágætlega þrátt fyrir kalda og vindasama nótt. Hann liggur ennþá í svefnpokanum og heyrir að vindinn fyrir utan tjaldið hefur lægt töluvert. Allt í einu finnur hann sterka þörf fyrir að fara út og hreyfa sig. Hann rennir niður rennilásnum á svefnpokanum og bröltir út úr tjaldinu. Úti er farið að birta og hann sér að ein hlið tjaldsins er á kafi í snjó. Lágar drunur heyrast úr maga Kára, hann hefur ekki borðað síðan í gær. Hann teygir sig eftir bakpokanum sem er ennþá inni í tjaldi en einhvern veginn hefur Kára tekist að flækja svefnpokann og bakpokann saman. Hann tekur báða poka út úr tjaldinu til að losa flækjuna þegar mun hærri drunur heyrast. Jörðin skelfur og Kári sér annað snjóflóð stefna beint á sig. Hann hleypur af stað þrátt fyrir stingandi sársauka í veika ökklanum og stekkur á bak við klett sem stendur upp úr jöklinum. Snjóflóðið þeytist áfram á ógnarhraða og rífur með sér bæði tjaldið og vélsleðann en Kári rétt sleppur. Hann rígheldur í bakpokann og svefnpokann og andar ótt og títt lengi eftir að snjórinn staðnar. Kári er ekki öruggur þarna, þar sem snjóflóð geta gripið hann með sér fyrirvaralaust, hann verður að finna sér öruggt skjól.

Hann bröltir erfiðlega upp brekkuna þangað til hann dettur gegnum snjóinn og lendir á mjúkum skafli ofan í djúpri sprungu. Eftir margar mínútur af hröðum hjartslætti sest Kári upp og nartar í mjólkurkex úr bakpokanum sínum. Hann lítur í kringum sig og sér að það er ómögulegt fyrir hann að reyna að klifra upp úr sprungunni.

„Það verður erfitt að finna mig hérna niðri en að minnsta kosti er ég í skjóli frá vindinum,“ hugsar Kári.

Hann býr til kodda úr snjónum, pakkar sig inn í svefnpokann og hlustar á niðinn í óveðrinu hátt fyrir ofan sig. Honum verður hugsað til barnanna sinna og mannsins síns. Honum er kalt og hann saknar þeirra en fallegar hugsanir um fjölskylduna flytja hann að lokum yfir í draumalandið.

18. kafli 

Leó hrekkur upp, var þetta skellur sem hann heyrði? Það er mið nótt og úti er vont veður, gul viðvörun sagði veðurfræðingurinn í sjónvarpinu í gær. Aftur heyrist eitthvað hljóð af neðri hæðinni. Leó fer fram úr, klæðir sig í peysu og læðist niður tröppurnar. Þá sér hann að útidyrnar eru opnar og vindurinn skellir hurðinni í snagana á veggnum. Ískaldur vindurinn blæs snjó beint í fangið á Leó. Handan götunnar sér hann jólasvein skella útidyrahurð og labba í burtu, en útidyrahurðin fýkur upp eins og Hurðaskellir hafi ekki lokað henni almennilega.

„Hurðaskellir hefur aldrei skilið eftir opnar dyr áður, er hann ekki örugglega í lagi?“ hugsar Leó með sér. Hann hleypur út á tánum til að athuga með Hurðaskelli en hann er horfinn. Leó ákveður þess í stað að loka dyrum nágrannans, áður en vindurinn fyllir anddyrið af snjó, og hleypur svo aftur heim til sín.

 

Leó hafði rétt fyrir sér, Hurðaskellir er ekki alveg búinn að ná sér eftir áreksturinn við jarðskjálftamælinn. Hann gerði sömu mistökin á fleiri stöðum í mannabyggðum í nótt og skildi því margar dyr eftir galopnar í vonda veðrinu. Hurðaskellir er gjörsamlega úrvinda þegar hann loksins kemst upp í bæjarhelli, leggst á gólfið og sofnar samstundis með tóman gjafapokann ennþá í hendinni.

 

„Samkvæmt tilkynningu frá lögreglunni gengu margir að opnum útidyrum nú í morgunsárið. Margir hafa tilkynnt um tjón vegna snjóskafla sem mynduðust í anddyrum en enn hafa ekki borist neinar tilkynningar um þjófnað. Svo virðist sem óprúttinn aðili eða aðilar hafi brotist inn í hús víðsvegar um landið en engu stolið. Í öðrum fréttum er það helst að maðurinn sem leitað hefur verið að síðan á sunnudag er enn ófundinn. Björgunarsveitir hafa lítið getað aðhafst vegna óveðurs sem gengur yfir svæðið …“

Grímur slekkur á útvarpinu og leggur þrjár skálar af hafragraut á eldhúsborðið. „Matur!“ kallar hann upp stigann og stuttu seinna koma systkinin niður að borða.

„Þið megið vera heima í dag ef þið viljið,“ segir Grímur þegar allar skálarnar eru tómar. Þau hjálpast að við að setja skálarnar í vaskinn. Dyrabjallan hringir og Grímur fer til dyra. Fyrir utan standa Margrét, Tindur, Gabríel og Gréta.

„Hæ, eru Leó og Katla heima?“ spyr Gréta.

„Við ætlum að bjóða þeim að vera samferða í skólann,“ segir Tindur.

Katla og Leó koma inn í anddyrið. Katla knúsar Margréti og Tind.

„Megum við fara með þeim?“ spyr Leó pabba sinn.

„Já, auðvitað, ef þið viljið,“ segir Grímur.

Leó klæðir sig í útiföt en Katla hleypur upp að ná í skólatöskuna sína. Hún er svo snögg inn og út úr herberginu að hún tekur ekki eftir jólaandakristalnum á bókinni um leyndardóma jólanna. Kristallinn flöktir á milli glóandi rauðs og kolbikasvarts. Jólin eru í stórhættu.

 

Á meðan björgunarsveitir leita árangurslaust að Kára er hann sjálfur að undirbúa könnunarleiðangur um sprunguna. Hann festir á sig mannbrodda, finnur vasaljós í töskunni og pakkar svefnpokanum saman. Hann fikrar sig hægt og varlega upp sprunguna og styður sig við ísvegginn. Kári heldur áfram, skref fyrir skref, upp, upp, upp, þrátt fyrir hátt garnagaul því hann verður að komast heim.

Ísveggurinn tekur snarpa beygju, sprungan hefur leitt Kára inn í risastóran íshelli þar sem grýlukerti af öllum stærðum hanga úr loftinu. Pollar hafa myndast undir grýlukertunum og í miðjum hellinum sést glitta í fjallið undir jöklinum, hrúgu af grjóti sem gægist upp úr klakanum.

Kári er uppgefinn hann fær sér sopa úr einum pollinum og finnur sér svo grýlukerta-laust skot í íshellinum. Þar borðar hann síðasta mjólkurkexið. Vistirnar eru á þrotum.

 

„Björgunarsveitirnar fundu vélsleðann hans í molum í dag og líka rifið tjald sem þau telja að Kári hafi notað,“ segir Grímur við krakkana eftir kvöldmat. „Það voru engin ummerki um Kára en hvar sem hann er niðurkominn þá er hann líklega orðin matarlaus. Nú þurfum við bara að vona að hann finnist sem fyrst. Það er það eina sem við getum gert.“

Þau gráta mikið þetta kvöld. Grímur sest á milli systkinanna uppi í hjónarúmi og heldur utan um þau. Katla sofnar fljótlega og stuttu seinna sofnar Grímur líka en Leó liggur andvaka við hliðina á þeim.

„Það hlýtur að vera einhver leið til að bjarga Kára,“ hugsar Leó. Þá allt í einu man hann eftir teikniblokkinni. Hann læðist fram úr án þess að vekja Kötlu eða Grím og fer inn í herbergið sitt. Hann finnur auða blaðsíðu og byrjar að teikna hlaðborð með öllum þeim mat sem Leó dettur í hug. Þegar teikningin er tilbúin skrifar hann undir myndina „Til pabba á jöklinum“ og lokar bókinni.

19. kafli 

Drip, drop, drip, drop….

Endalausir dropar, vindur í fjarska og ærandi garnagaul halda vöku fyrir Kára. Hann byltir sér í svefnpokanum á köldu gólfi íshellisins. Hann er kaldur og svangur og hann saknar fjölskyldu sinnar, það er engin leið út úr þessum helli. Kári veit ekkert hvernig þetta mun enda, hvort hann mun nokkurn tímann finnast. Allt í einu heyrir Kári undarlegt hljóð, fallegt hljóð, eins og einhver hafi rekið sig í litlar bjöllur. Hann opnar augun og trúir varla eigin augum. Á miðju ísgólfinu stendur hlaðborð, troðið af mat.

„Þetta hljóta að vera hyllingar, eða draumur,“ hugsar Kári með sér og lokar aftur augunum. „En það er vissulega matarlykt, getur maður fundið lykt í draumi?“

Kári sest upp og klípur sig í handlegginn.

„Þetta var sárt, sem þýðir…“ hugsar Kári og nálgast hlaðborðið. Hann réttir varlega fram höndina og potar í girnilegan kjúkling. Kjúklingurinn er raunverulega þarna, Kári potar í salat sem er líka raunverulega til. Hann stingur kirsuberjatómati upp í sig og finnur safan springa út upp í sér. Kári borðar sig pakksaddan af kræsingunum og sofnar svo loksins, saddur og sæll.

 

Leó vaknar í sínu rúmi. Þar sem ekkert hlaðborð birtist í herberginu hans í nótt þá er hann viss um að það hafi skilað sér á réttan stað og pabbi hans muni ekki svelta. Leó kíkir út í glugga og sér að Skyrgámur hefur gefið systkinunum sameiginlega gjöf. Leó tekur gjöfina og röltir inn í hjónaherbergið þar sem Katla og Grímur eru ennþá sofandi. Hann sest á rúmið og Katla rumskar.

„Hæ Katla, sjáðu hvað Skyrgámur gaf okkur,“ hvíslar Leó og sýnir henni borðspil. „Viltu koma að spila?“

Katla kinkar kolli og systkinin læðast niður í stofu að spila án þess að vekja pabba sinn.

Grímur vill að krakkarnir verði heima í dag og systkinin samþykkja það. Leó segir systur sinni frá hlaðborðinu sem hann sendi pabba þeirra með töfrateikniblokkinni og það lætur Kötlu líða betur. Þau fá heimsókn frá fólki úr Rauða krossinum  og björgunarsveitinni sem vilja ræða við systkinin um atburði síðustu daga. Þegar Katla bregður sér á klósettið heyrir hún samtal Gríms við björgunarsveitarmann og kemst þá að því að pabbi hennar gæti verið fastur í sprungu. Það gefur henni hugmynd. Hún biður Leó um að teikna skóflu í töfrateikniblokkina.

Leó teiknar sterkbyggða snjóskóflu á næstsíðustu blaðsíðuna. Katla situr uppi á gluggakistu og fylgist grannt með. Þegar teikningin er tilbúin vandar Leó sig sérstaklega vel við að skrifa: Til pabba á jöklinum til að skóflan skili sér örugglega á réttan stað. Leó er stressaður og fær Kötlu til að loka teikniblokkinni. Hún gerir það og systkinin bíða stjörf, þau stara á bókina í heila mínútu áður en þau anda léttar því engin skófla birtist hjá þeim.

 

Inni í íshellinum er Kári að borða mat af hlaðborðinu þegar undarlega bjölluhljóðið heyrist aftur. Kári snýr sér við og sér snjóskóflu liggja á gólfinu.

„Hver sem vakir yfir mér og sendir mér þessar bjargir, takk fyrir. Þakka þér fyrir!“ kallar hann upp í loftið og tekur upp skófluna.

Kári lítur í kringum sig og sér hvar sólin virðist skína gegnum snjóinn. Það hlýtur að vera stysta leiðin út. Kári hamast með skóflunni. Hann brýtur klaka, mokar snjó og smám saman grefur hann sér göng sem liggja upp. Hann tekur sér stuttar pásur til að fá sér að borða og drekka en heldur síðan áfram þangað til göngin leiða út úr hellinum. Kári pakkar afgangs matnum af hlaðborðinu ofan í töskuna sína, tekur skófluna og heldur af stað út í óvissuna.

20. kafli 

Katla og Leó fá bjúgu í skóinn frá Bjúgnakræki. Katla hlær svo hátt þegar hún uppgötvar bjúgun að hún vekur bæði Leó og Grím sem hlæja líka. Grímur hlær í fyrsta sinn síðan Kári týndist. Katla krefst þess að fá að fara í skólann því í dag verður jólasveinaleikritið sýnt og ekki er hægt að sýna jólasveinaleikrit án Askasleikis. Systkinin fá bæði að taka með sér   sparinesti og Grímur lofar að mæta á jólaskemmtunina. Bekkurinn hennar Kötlu heldur upp á litlu jólin með sparinesti og leynisveinagjöfum áður en þau fara í búninga og hita upp fyrir leikritið. Grímur og Leó setjast saman á fremsta bekk til að fylgjast með leikritinu. Kennarinn kynnir bekkinn á svið og salurinn klappar þegar sögumennirnir þrír koma inn á svið og taka sér stöðu fyrir framan hljóðnema. Tindur er fyrstur til að lesa.

Segja vil ég sögu af sveinunum þeim,
sem brugðu sér hér forðum á bæina heim …

Sviðsmyndin er mjög flott í sviðsljósinu, kindin hennar Kötlu gegnir mikilvægu hlutverki þegar hún er dregin eftir sviðinu í erindinu um Stekkjastaur.

Hann vildi sjúga ærnar, þá varð þeim ekki um sel
því greyið hafði staurfætur, það gekk nú ekki vel.

Þegar Margrét les erindið um Askasleiki, skríður Katla undan sviðstjaldinu þar sem búið er að festa mynd af rúmi og áhorfendur hlæja.

Sá sjötti Askasleikir, var alveg dæmalaus.
Hann fram undan rúmunum rak sinn ljóta haus.
Þegar fólkið setti askana fyrir kött og hund,
hann slunginn var að ná þeim og sleikja á ýmsa lund.

Katla teygir sig í askinn sinn og þykist sleikja hann að innan með miklum tilþrifum, Katla sér Grím hlæja með áhorfendunum.

Þegar allir sveinarnir hafa verið kynntir á svið setjast þeir saman kringum eldstæði og Tindur les síðasta erindið:

Á sjálfa jólanóttina, sagan hermir frá,
á strák sínum þeir sátu og störðu ljósin á.
Svo tíndust þeir í burtu, það tók þá frost og snjór.
Á þrettándanum síðasti sveinstaulinn fór.

Öll hneigja sig og áhorfendurnir klappa ákaft. Grímur og Leó rísa úr sætum sínum og í kjölfarið standa allir upp og klappa. Katla hneigir sig þrisvar sinnum áður en hún þarf að flýta sér úr búningnum því kórinn hennar er næstur á svið. Katla, Tindur og Margrét hlaupa sveitt til kórfélaga sinna. Þau rétt ná andanum áður en þau ganga inn á svið og hefja söng.

Grímur brosir þegar hann heyrir erindið um pabba sem kyssir jólasvein. Það er síðasta lagið á jólaskemmtuninni í dag og svo hneigir kórinn sig undir dynjandi lófataki.

„Þvílíkur leiksigur,“ kallar Grímur með opinn faðminn og tár í augunum þegar Katla kemur niður af sviðinu.

Feðgarnir knúsa Kötlu og óska henni til hamingju með frammistöðuna í leikritinu og með kórnum. Nú tekur við jólaball sem formlega lýkur þessari önn en Katla og Leó vilja frekar fara heim með pabba sínum.

„Ég vildi óska þess að pabbi hefði séð leikritið. Ég hlakka til að segja honum allt þegar hann kemur heim,“ segir Katla í bílnum á leiðinni heim. Grímur er með kökk í hálsinum og kemur ekki upp orði.

Leó hallar sér að Kötlu og hvíslar, „ég veit hvað við getum notað seinustu blaðsíðuna í.“

„Krakkar, ég er ekki viss um að ég hafi orku í að elda í kvöld. Við verðum að elda þessi bjúgu seinna,“ segir Grímur þegar þau koma niður stigann um kvöldmatarleytið en þá hringir síminn hans. Á skjánum stendur „Óþekkt númer.“ Grímur ýtir á græna takkann og svarar, „hæ, hver er þar?“

„Hæ, ástin mín, þetta er ég,“ segir Kári og Grímur fellur niður í næsta stól.

Kári segir þeim frá kraftaverkum síðustu daga og segist vera að hringja úr rauðum skífusíma sem hafi birst óvænt uppi á miðjum jökli.

Grímur er orðlaus svo Katla tekur orðið og segir pabba sínum frá jólasveinaleikritinu.

„Það minnir mig á það að ég held að ég hafi séð nokkra jólasveina hverfa fyrir hól fyrsta daginn þegar við komum að laga jarðskjálftamælinn,“ segir Kári. Leó og Katla horfa spennt hvort á annað. Í símanum heyrast skruðningar í vindinum.

„Það er farið að bæta í vindinn svo ég þarf að fara að grafa mér skjól fyrir nóttina, það var gaman að heyra í ykkur. Við sjáumst fljótlega, góða nótt,“ segir Kári.

„Góða nótt, ég elska þig,“ segir Grímur.

„Ég elska þig líka,“ segir Kári og skellir á.

„Jæja, hverjir vilja fá bjúgu í kvöldmatinn?“ spyr Grímur krakkana, hann hefur fundið orkuna sína aftur.

Um kvöldið skrifa krakkarnir eftirfarandi bréf til Gluggagægis.

Kæri Gluggagægir
Kári, pabbi okkar er týndur uppi á jökli. Hann rann með snjóflóði síðasta sunnudag og lenti svo næstum því aftur í snjóflóði. Hann datt í sprungu og við sendum honum mat og skóflu svo hann kæmist út. Í dag sendum við honum síma og hann sagði okkur að hann hafi séð einhverja jólasveina á sunnudaginn. Hann er því líklega nálægt hellinum ykkar, við viljum biðja þig um að finna hann og koma með hann heim fyrir jól.
Kær kveðja,
Katla og Leó

21. kafli 

Kæru Katla og Leó
Ég fer ekki aftur upp á jökul fyrr en á næsta ári því ég þarf að safna kröftum í Bæjarhelli áður en ég fer aftur heim. En mig grunar að pabbi ykkar hafi séð mig og bræður mína síðasta sunnudag, sem þýðir að hann er ekki langt frá Grýluhelli. Ég skal hafa samband heim og biðja bræður mína þar um að hafa augun opin.
Kveðja Gluggagægir.
P.S. Vonandi finnst ykkur súkkulaði vera gott

 

Katla les bréfið fyrir Leó og sýnir honum súkkulaðisveinana sem Gluggagægir gaf þeim í skóinn.

„Jólasveinarnir ætla að bjarga pabba, hversu svalt er það?“ segir Katla og brosir út að eyrum.

 

Dauðþreyttur Gluggagægir dregur lappirnar inn í Bæjarhelli og fær símann lánaðan hjá Stúfi. Bræðurnir hringja upp í Grýluhelli og fá að tala við Gáttaþef.

„Hæ, hver er þar?“ spyr Gáttaþefur syfjaður, þeir voru greinilega að vekja hann.

„Hæ, þetta er ég, Gluggagægir. Fyrirgefðu ef við vöktum þig en Katla og Leó skrifuðu mér bréf, pabbi þeirra er týndur uppi á jökli og þau vilja fá hann heim fyrir jól. Getur þú haft nefið úti fyrir honum? Hann ætti að vera einhversstaðar þarna uppi á jökli.“

„Já, ég skal reka nefið út áður en ég fer í kvöld en fyrst þarf ég að dorma örlítið lengur,“ segir Gáttaþefur og skellir á.

Gluggagægir réttir Stúfi símann og horfir yfir hópinn, bræður hans stara allir á hann.

„Í dag er stysti dagur ársins, pabbi þeirra hefur verið einn uppi á jökli síðan á sunnudaginn, ég get ímyndað mér að hann sé orðinn einmana svo hvað getum við gert?“ spyr Gluggagægir og bræðurnir spekúlera í smá stund. Loks fær Þvörusleikir frábæra hugmynd, hann tekur upp auða teikniblokk og sendir Kára félagsskap.

 

Kári situr inni í pínulitlu snjóhúsi í myrkri og kulda. Grímur kvaddi Kára fyrir hálftíma því hann þurfti að fara á æfingu svo nú er Kári aftur einn í heiminum. Hann nartar í afganga frá hlaðborðinu og óskar þess að finnast fljótlega. Þá allt í einu heyrir hann bjölluhljóðið en ekkert birtist inni í snjóhúsi.

„Kannski var þetta bara ímyndun,“ hugsar Kári en þá heyrist gelt fyrir utan snjóhúsið.

„Halló? Er einhver þarna?“ kallar Kári og skríður út.

Fyrir utan snjóhúsið stendur ljósbrún og loðin tík, hún er ung en ekki hvolpur lengur, Kári áætlar að hún sé álíka stór og Moli var. Tíkin hleypur til hans, hún dillar skottinu og sleikir Kára í framan. Hann svipast um eftir eiganda en þau virðast vera ein á jöklinum. Kári klappar henni, beygir sig svo niður og hnoðar snjóbolta sem hann kastar. Hundurinn geltir glaðlega og eltir boltann en þá kemur enn einn jarðskjálftinn. Hundurinn hleypur til Kára með skottið milli lappana. Kári tekur utan um hana og róar hana niður.

Sem betur fer féll snjóhúsið ekki saman í skjálftanum svo þau skríða í skjól þar sem Kári gefur hundinum nafnið Birta.

22. kafli 

Áður en Gáttaþefur fór til byggða í gær, rak hann nefið út og þefaði uppi lítið snjóhús sem stóð við hliðina á rauðum skífusíma. Þar inni sváfu maður og hundur. Gáttaþefur bar þau heim í Grýluhelli og fór svo sína leið.

Kæru Katla og Leó
Bróðir minn hann Gluggagægir hafði samband við mig í gær og bað mig um að hafa nefið úti fyrir pabba ykkar. Hann er nú kominn í öruggar hendur í Grýluhelli. Þið getið búist við að heyra frá honum þegar hann vaknar, vonandi kann hann betur á símaapparatið en hún Grýla mamma.
Kveðja,
Gáttaþefur

Systkinin finna bréfið og sitthvorn skopparaboltann frá Gáttaþefi. Þau hlaupa niður með bréfið og sýna pabba sínum. Grímur tekur bréfinu með fyrirvara, því hann trúir varla að jólasveinarnir gætu bjargað Kára. Hann heldur þó í vonina og byrjar að græja morgunmat fyrir sig og krakkana en heima í Grýluhelli er Kári að rumska. 

Kári opnar augun og horfir beint upp í steinloft, það tekur hann smá stund að átta sig á því að hann er ekki lengur inni í snjóhúsinu. Hann sest snöggt upp og finnur þá eitthvað loðið strjúkast við aðra höndina. Kári lítur niður og sér tíkina Birtu kúra hjá honum. Þau liggja bæði á gærum sem hylja hart steingólf.

„Við erum inni í helli,“ hugsar Kári „hvernig komumst við hingað. Og það sem meira er, hvernig komumst við út?“ Hann lítur í kringum sig í leit að útgönguleið og hrekkur við þegar hann kemur auga á Grýlu standa í gættinni.

„Góðan daginn Kári og vertu velkominn, ég átti von á þér,“ segir Grýla við Kára. „Þú hins vegar, kemur mér á óvart,“ segir hún við hundinn. Birta geltir. „Ég vona að þú sért ekki hrædd við kisur,“ segir Grýla.

„Er mig að dreyma eða ert þú í alvöru hin eina sanna Grýla?“ spyr Kári forviða.

Grýla kinkar kolli og fylgir honum inn í eldhús.

 

Grímur, Katla og Leó eru að borða morgunmat þegar síminn hringir, Kári birtist á skjánum og fyrir aftan hann sjá þau Grýlu, Leppalúða, Ketkrók og Kertasníki. Grímur gapir.

„Ég trúi þessu varla sjálfur en ég vaknaði í Grýluhelli í morgun og Grýla sjálf hefur boðist til að fylgja mér í bæinn,“ segir Kári.

„Vá! Ertu í alvöru í Grýluhelli?! Megum við koma til þín?“ spyr Katla spennt.

„Ég veit ekki alveg hvort það gangi upp,“ segir Kári hikandi.

„Jú, jú, það er alltaf nóg pláss á þessum tíma,“ segir Grýla á bak við Kára.

„Við getum því miður ekki bara skroppið upp á jökul, það er allt of hættulegt ferðalag, sérstaklega í þessu veðri,“ segir Grímur og Kári kinkar kolli.

„Þið gætuð auðvitað fengið far með pokanum,“ stingur Leppalúði upp á.

„Hvaða poka?“ spyr Leó.

Grímur og krakkarnir keyra að rótum jökulsins þar sem björgunarsveitin hefur slegið upp tjaldbúðum. Í þann mund sem þau stíga út úr bílnum kemur Grýla röltandi niður bratta hlíðina. Björgunarsveitafólkið trúir ekki eigin augum, nokkrir taka upp síma og taka myndir eða myndbönd af Grýlu. Grýla er um fjórir metrar á hæð, þéttvaxin og hrukkótt. Hún hefur vafið sjali utan um hárlubbann sem felur loðnar axlirnar. Undan kjólræflinum sést glitta í hala. Í annarri hendi heldur hún á gamla óþekktarormapokanum sínum, hann er risastór og nóg rými til að Grímur og krakkarnir komist vel fyrir.

Það verða miklir fagnaðarfundir þegar þau fá loksins að knúsa Kára. Þau fá skoðunarferð um Grýluhelli og velta fyrir sér hvernig best sé að bjarga jólunum.

Það er Leó sem fær frábæra hugmynd.

„Hvað ef allir fá einstaka gjöf í skóinn á aðfangadag? Líka fullorðnir, eitthvað sem er bara  hægt að gefa fyrir tilstilli töfra?“

23. kafli 

Katla og Leó vakna við að Birta, hundurinn, stekkur í bælið til þeirra og sleikir þau í framan. Systkinin líta hvort á annað og muna á sama tíma hvar þau eru stödd, í hinu eina sanna Grýlubæli. Þau brosa út að eyrum og fara á fætur. Skórnir þeirra standa á hellisgólfinu og ofan í hvoru pari eru blýantar í mannfólksstærð.

„Þessir eiga eftir að koma sér vel í dag,“ segir Leó.

Birta dillar skottinu og geltir, krakkarnir hlæja og elta hana inn í eldhús þar sem Grímur er að kenna Grýlu að elda hafragraut. Kári, Leppalúði og Kertasníkir eru að nýta tímann fyrir mat til að teikna í teikniblokkirnar.

Jólakraftaverkið sem Leó datt í hug við kvöldverðarborðið í gær eru blóm sem blómstra bara á vorin, blóm sem finnast ekki í desember. Allir fullorðnir sem fá ekki lengur í skóinn munu vakna í fyrramálið og finna ilmandi ferskan blómvönd. En það mun bara gerast ef þau bretta upp ermar og teikna blóm í teikniblokkirnar þangað til hendurnar geta ekki meira. Stúfur hringir til að bjóða fram aðstoð ellefu bræðranna í Bæjarhelli. Leó upplýsir þá um áætlunina og sem betur fer höfðu allir bræðurnir tekið með sér auka teikniblokkir til byggða. Þeir bretta allir upp ermarnar, koma sér fyrir víðsvegar um Bæjarhelli og teikna blóm meðan Ketkrókur leggur sig eftir næturvaktina.

Katla passar sig að nýta blaðsíðurnar vel, hún teiknar mörg blóm í einu á sömu blaðsíðuna svo lokar hún teikniblokkinni og bíður eftir bjölluhljóðinu. Bunki af gleym-mér-ei-um birtist sem Katla leggur í eina af mörgum blómahrúgum hjá Kertasníki sem hefur fengið það verkefni að binda blómin saman í blómvendi.

Nokkrir skjálftar hrista hellinn duglega og Kári fær þær fréttir frá Veðurstofunni að það sé kvikuinnskot undir jöklinum en engin leið að vita hvort eða hvenær eldgos gæti hafist.

Grýla er ekki áhyggjufull. Hún treystir því að jólatöfrarnir verndi þau frá náttúruöflunum. Grýla er fyrst til að gefast upp á að teikna blóm, hún setur á sig svuntu og byrjar að elda vel kæsta skötu með tilheyrandi óþef. 

Þeim tekst að klára síðasta blómvöndinn rétt áður en skatan er lögð á borð ásamt hamsatólgi, rófum og rúgbrauði með smjöri. Grýla segir þeim söguna af Þorláki helga sem Þorláksmessa er kennd við og svo uppgötva þau stórt vandamál. Kertasníkir getur ekki borið alla blómvendina einn auk allra gjafanna en þá er það Katla sem fær frábæra hugmynd. Hún nær sér í töfrateikniblokk og teiknar eina mynd til viðbótar.

„Tilbúin,“ segir Katla þegar hún leggur frá sér blýantinn og lokar teikniblokkinni. Þau heyra bjölluhljóm og líta í kringum sig. Allt í einu heyrist hátt flaut fyrir utan hellinn, Katla hleypur út með öll hin á hælunum. Fyrir utan Grýluhelli, á snæviþöktum jöklinum, stendur stór rauð lest.

„Snillingur!“ segir Leó og gefur Kötlu fimmu.

„Katla, ertu nokkuð búin að gleyma að það eru engir lestarteinar á Íslandi?“ spyr Kári.

„Pabbi, þetta er að sjálfsögðu fljúgandi lest,“ segir Katla og ranghvolfir augunum.

„Að sjálfsögðu,“ hvíslar Grímur glottandi til Kára.

Þau hjálpast öll að við að ferja blómin inn í vagna lestarinnar, síðan fara Kertasníkir, fjölskyldan og Birta um borð og lestin tekst á loft.

„Takk kærlega fyrir okkur,“ kallar Kári niður til Grýlu og Leppalúða.

„Okkar var ánægjan, takk fyrir hjálpina!“ kallar Grýla upp til þeirra og veifar þeim.

Stefnan er fyrst sett á Bæjarhelli þar sem allir hinir jólasveinarnir stútfylla lestina af blómvöndum og stíga svo um borð til að hjálpa Kertasníki við dreifinguna. Lestin lendir fyrst í götunni þar sem fjölskyldan á heima. Þar kveðja þau jólasveinana og kynna svo Birtu fyrir nýja heimilinu sínu.

Vegna hrakfara Kára er jólatréð ennþá ofan í kassa, svo seint á Þorláksmessukvöldi setur fjölskyldan jólatréð saman og skreytir það með ljósum, kúlum og allskonar öðru skrauti.

24. kafli 

Grýla vaknar við að bælið hennar lýsist upp líkt og sólin hafi skriðið inn til þeirra Leppalúða. Á náttborðinu liggur bókin um leyndardóma jólanna og jólaandakristallinn lýsir núna sterku gulu ljósi. Það þýðir að ekki þurfi að hafa miklar áhyggjur af jólaandanum því trú mannfólksins sé orðin nokkuð sterk, þó þau gætu þurft áminningu um kærleik.

Grýla og Leppalúði dansa af kæti yfir styrkleika jólaandans. Þau njóta þess að dilla sér í tómum hellinum og hlakka til rólegra jóla.

 

Forseti Íslands vaknar þennan aðfangadagsmorgun og vill byrja daginn á smá göngutúr. Hann klæðir sig í litríka sokka, fer í úlpu og setur buff á hausinn. Honum verður þá litið á skóhilluna þar sem blómvöndur stendur upp úr einum skónum hans og annar blómvöndur liggur í skó eiginkonu hans. „Þetta er undarlegt,“ segir hann við sjálfan sig og finnur vasa fyrir vendina. Síðan klæðir hann sig í blómlausa skó og arkar í átt að jólaljósaþyrpingu.

 

Mannfólkið vaknar eitt af öðru og finnur óvænta blómvendi í skónum sínum. Flestir eru glaðir og margir geta ekki annað en trúað á töfra þegar enginn nákominn vill kannast við að rækta sumarblóm í leyni. Fólk með frjókornaofnæmi er þó misglatt og mörg þurfa að grafa upp ofnæmislyfin úr lyfjaskápnum svo þau hnerri ekki yfir jólasteikina.

 

„Grýla er viral,“ segir Leó þegar hann arkar niður stigann með símann í hendinni.

„Myndbandið af henni að bjarga okkur er út um allt,“ segir hann og sýnir pöbbum sínum og Kötlu stutt brot úr myndbandinu.

„En skemmtilegt,“ segir Kári.

„Eru engin myndbönd af fljúgandi lestinni sem skutlaði okkur heim í gær?“ spyr Grímur.

„Nei, ekki ennþá,“ segir Leó og stingur símanum í vasann.

Hann sest við eldhúsborðið og fær sér morgunkorn með mjólk, honum verður litið á tréð í stofunni og sér stóra pakkahrúgu undir því.

„Þegar þið eruð búin að borða megið þið fara upp og klæða ykkur í snyrtileg föt því við ætlum að fara til Súsíar í möndlugraut,“ segir Grímur brosandi.

Hann er mjög glaður að sjá fjölskylduna loksins sameinaða á ný. Hann lítur brosandi á börnin sín og á eiginmann sem hann missti næstum því. Fjölskyldan getur loksins haldið venjuleg jól. Þau rölta yfir til Súsíar í möndlugraut þar sem Leó fær möndluna og þar af leiðandi einnig möndlugjöfina. Í ár er hún spil sem þau geta spilað seinna um kvöldið. Systkinin fara svo með Súsí í kirkjugarðinn að heimsækja leiði Gvends meðan pabbarnir fara heim að undirbúa jólamatinn. Rétt fyrir klukkan sex hlusta þau á þögnina í útvarpinu en í stað þess að heyra bjöllur klingja á slaginu er útsendingin rofin.

 

„Við rjúfum þessa útsendingu vegna þess að gos er hafið í Kötlu,“segir þulurinn í útvarpinu. Kári stekkur inn í stofu og kveikir á sjónvarpinu.

„Tilkynning barst frá Veðurstofu Íslands rétt í þessu. Gos hófst í Kötlu undir Mýrdalsjökli fyrir um 15 mínútum. Rýmingaráætlun Almannavarna hefur verið virkjuð og er fólk beðið um að gefa sig fram í fjöldahjálparstöð í húsnæði Rauða krossins að Eyrarvegi á Selfossi …“

Fréttakonan þagnar og ber fingurinn upp að eyranu.

„Bíðið augnablik, það voru rétt í þessu að berast fregnir af kraftaverki. Símtölum hefur rignt inn til Ríkisútvarpsins og Rauða krossins frá fólki sem vill rétta fram hjálparhönd og bjóða þeim sem þurfa að yfirgefa heimili sín að dvelja hjá þeim yfir jólin. Fólk hefur safnast saman hjá fjöldahjálparstöðinni með jólapakka fyrir börnin og heimboð fyrir jólin. Þetta myndband var að berast frá Kristbjörgu sem býr á Selfossi.“

Á skjánum birtist myndband af hópi spariklædds fólks sem syngur saman jólalög fyrir utan fjöldahjálparstöðina á Selfossi.

„Þetta er sannkallaður jólakærleikur á ferð. Á þessum góðu fréttum lýkur þessum aukafréttatíma, fréttavefurinn okkar verður uppfærður reglulega í kvöld og nótt. “

Kári slekkur á sjónvarpinu, þau setjast spariklædd við borðið og borða æðislegan lambahrygg með meðlæti og laufabrauði. Þau skiptast á gjöfum og njóta samverunnar.

 

Í Bæjarhelli grilla jólasveinarnir bjúgu, hangilæri og fleira góðgæti yfir opnum varðeldi. Þeir sitja saman allir þrettán, dást að jólaljósum og vorkenna Grýlu og Leppalúða að missa af þessari veislu.

En fyrir utan Grýluhelli sitja Leppalúði og Grýla hin ánægðustu í kyrrðinni með sviðakjamma og rófustöppu. Þau skála í mysu og horfa á öskuský rísa upp úr jöklinum. Á náttborði Grýlu liggur bókin Leyndardómar jólanna ennþá og jólaandakristallinn er nú orðinn skær grænn.

Mannfólkið trúir á jólin og kærleikann, þau munu ekki gleyma því næstu árin.